„Höfum beðið eftir alvöru aðgerðum frá stjórnvöldum“

28.09.2020 - 08:30
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, gagnrýnir að kjör öryrkja hafi ekki verið bætt á kjörtímabilinu. Hún vonast eftir úrbótum í síðasta fjárlagafrumvarpi fjármálaráðherra á kjörtímabilinu en hann leggur það fram í vikunni.

Rætt var við Þuríði á Morgunvaktinni í morgun. Hlusta má á brot úr viðtalinu í spilaranum hér fyrir ofan. 

Þuríður segir að örorkulífeyrir hafi dregist aftur lágmarkslaunum úr á síðustu tíu árum þannig að nú munar 80 þúsund krónum. Lífeyrinn dugi ekki fyrir lífsnauðsynjum og því neyðist öryrkjar til að leita til hjálparsamtaka.  

Þuríður segir að Öryrkjabandalagið hafi rætt við stjórnvöld undanfarin þrjú ár og vonast eftir úrræðum til þess að bæta stöðu öryrkja.  

„Við höfum beðið eftir alvöru aðgerðum frá stjórnvöldum um að þau muni bæta hag fatlaðs fólks og þar höfum við sagt að það sé lang mikilvægast að draga úr skerðingum og hækka örorkulífeyri. Það bara verða stjórnvöld að gera. Ég hef miklar væntingar til stjórnvalda nú, að þau skilji okkur ekki eftir. Að í fjárlagafrumvarpinu sjáum við þess raunveruleg merki að þau ætli að bæta hag fatlaðra og langveikra einstaklinga og barna þeirra. Því þetta er fólk eins og annað fólk í landinu. Ég trúi því ekki fyrr en á reynir að stjórnvöld bæti ekki hlut þessara einstaklinga sem hefur ekki verið leiðréttur í tíu ár, eða fyrir bankakreppu.“ 

Þuríður segir stjórnvöld gera sér grein fyrir því hvar skórinn kreppir en segist ekki sjá nein merki þess að þau séu að stíga fram. Hún vonast til þess að stjórnvöld ætli sér að bæta hag þessa hóps. 

Öryrkjabandalagið hafi ekki  séð neinar raunverulegar tillögur. „Það er talað um þennan 1,1 milljarð sem við eigum ennþá eftir að fá frá því á fyrri fjárlagafrumvörpum. Það er ekki búið að ákveða hvernig á að deila honum út eða hvernig á að nota hann. Það er alveg ljóst að það þarf miklu meiri upphæðir og miklu meiri peninga en þetta til þess að reyna að lagfæra það sem úrskeiðis hefur farið síðustu tíu árin. 1,1 milljarður dugar ekki þar. “

Öryrkjabandalagið sé einhuga um að bæta þurfi hag einstaklinga sem búi við það að fá örorkulífeyri upp á 255 þúsund krónur fyrir skatt. Öryrkjar fái ekki meiri tekjur en það og þurfi að leita til hjálparsamtaka til að ná endum saman. „Við leggum ofuráherslu á að kjörin verði leiðrétt hjá þessum hópi og að þetta verði að minnsta kosti til jafns við lágmarkslaun. Það má ekki vera lægra. VIð erum hópur af fólki sem býr við það að nota læknisþjónustu miklu frekar en aðrir og ýmsa aðra þjónustu. Þannig að ég held að við höldum áfram á þessari braut.“  Öryrkjabandalagið hafi lagt áherslu á að heilbrigðiskerfið verði ókeypis fyrir fatlað fólk og öryrkja og bæta úr húsnæðisvanda öryrkja.

„Fyrst og fremst þarf að tryggja að fólk hafi tækifæri til að kaupa sér að borða og borga lyfin sín og lifa mannsæmandi lífi.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi