Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Forsendur brostnar í nýjum veruleika

Blaðamannafundur vegna stöðu í kjaraviðræðum.
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - Fréttir
Samtök atvinnulífsins telja að forsendur Lífskjarasamninganna sé ekki lengur til staðar. Forsendubrestur sé raunar víðar en aðeins í samningunum. Mikil óvissa sé um framhald efnahags og atvinnumála á Íslandi.

Þetta kemur meðal annars fram í skýrslu Samtaka atvinnulífsins sem nefnist Nýr veruleiki, forsendur lífskjarasamninga. Þar eru útlistuð níu atriði sem samtökin telja að varpi ljósi á þá efnahagsmynd sem við blasi.

Þau eru: 

  1. Efnahagshorfur hafa versnað til muna.
  2. Lífskjarasamningar byggðu á væntingum sem verða ekki að veruleika.
  3. Mikill tekjusamdráttur er fyrirséður, þvert á atvinnugreinar.
  4. Aukning í atvinnuleysi þegar orðið í öllum atvinnugreinum.
  5. Síðustu ár hafa einkennst af efnahagslegum stöðugleika.
  6. Mikilvægt er að draga lærdóm af efnahagsþrengingum fortíðar.
  7. Verkefnið framundan er að verja störf og viðhalda stöðugleika.
  8. Lítil innistæða er fyrir launahækkunum við núverandi aðstæður.
  9. Forsendur eru brostnar víðar en einungis í atvinnulífinu.

Hvert atriði er svo útlistað og útskýrt nánar í skýrslunni. Í inngangi hennar segir að við undirritun Lífskjarasamninganna í apríl árið 2019 hafi verið gert ráð fyrir að hagvöxtur yrði á næstu árum og að vonir hafi staðið til að atvinnulífið gæti staðið undir umsömdum launahækkunum. Nú séu þær forsendur hins vegar brostnar. Hagstofan, Seðlabankinn og stjórnvöld hafi dregið upp dökka efnahagsmynd í kjölfar faraldursins. Gjörbreytt staða og óvissa sé um efnahagsframvindu sem kalli á viðbrögð. Ábyrgðin liggi nú hjá aðilum vinnumarkaðarins.

Þá segir einnig að búist sé við því að verðmætasköpun verði ríflega 300 milljörðum króna minni á árinu 2021 en gert var ráð fyrir við undirritun samninga. Við blasi að lítil sem engin innistæða sé fyrir 45 milljarða króna launahækkunum við núverandi aðstæður.