Fjölnir lýkur leiktíðinni í Egilshöll

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Fjölnir lýkur leiktíðinni í Egilshöll

28.09.2020 - 10:13
Fjölnir hefur í samráði við mótanefnd KSÍ ákveðið að færa síðustu tvo heimaleiki sína í Pepsi Max deildinni í fótbolta inn í Egilshöll. Fjölnir hefur leikið alla heimaleiki sína í ár fram að þessu á Extra-vellinum við Dalhús í Grafarvogi.

Leikirnir sem um ræðir verða heimaleikir Fjölnis við KR, 15. október og leikur við HK 24. október. HK-ingar ættu nú að vera vanir því að spila fótbolta inn í knatthúsi, enda er Kórinn í Kópavogi heimavöllur HK-inga. KR-ingar gætu hins vegar tekið þessum fréttum verr.

KR spilaði við Vængi Júpiters í Egilshöll í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins í júní. Þar sleit Gunnar Þór Gunnarsson varnarmaður KR krossband í hné og kvörtuðu bæði Gunnar og Rúnar Kristinsson þjálfari KR undan gervigrasinu í Egilshöll. Rúnar benti á að tími væri kominn á að endurnýja gervigrasið þar sem það væri í notkun frá morgni til kvölds meira og minna alla daga. Fasteignafélagið Reginn sem rekur Egilshöll sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfarið og taldi allt vera í stakasta lagi.