
Skiptar skoðanir um jafna skiptingu fæðingarorlofs
Samkvæmt núgildandi lögum er orlofið nú samtals tíu mánuðir, fjórir mánuðir á hvort foreldri og að auki tveggja mánaða sameiginlegur réttur sem foreldrar velja hvernig þeir ráðstafa. Til stendur að lengja fæðingarorlofið í tólf mánuði um áramótin og í frumvarpi félagsmálaráðherra er lagt til að því verði skipt jafn þannig að hvort foreldri fái sex mánuði, en verði heimilt að færa einn mánuð sín á milli. Þá er lagt til að það tímabil sem foreldrar hafa til að taka fæðingarorlof verði stytt úr tveimur árum í eitt og hálft ár.
Sjá einnig: Meira svigrúm í nýjum fæðingarorolofslögum
„Markmiðið er að útfæra þessa lengingu fæðingarorlofsins og fara yfir ýmis atriði sem hafa brunnið á síðustu ár,“ segir Ásmundur Einar.
Ljóst er að þó að orlofið lengist samtals í tólf mánuði verður sá hluti fæðingarorlofs sem foreldrar geta skipt á milli sín styttur, samkvæmt frumvarpinu. Margir telja þetta skref í átt að kynjajafnrétti. Sonja Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir á Facebooksíðu sinni að það sé löngu tímabært að skipta orlofinu jafnt milli foreldra. En fyrirkomulagið hefur líka verið gagnrýnt. Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir í aðsendri grein í Morgunblaðinu að frumvarpið feli í sér skerðingu á frelsi fjölskyldna og dragi úr möguleikum til að mæta þörfum og hag barnsins hverju sinni.
Frumvarpið byggir á tillögum samstarfshóps sem skipaður var í fyrra til að vinna að heildarendurskoðun laga um fæðingar- og foreldraorlof.
„Það var skipuð sérstök nefnd til að fara yfir þetta með öllum aðilum vinnumarkaðar. Þeir skiluðu þessu frumvarpi til mín og það er núna komið í samráðsgátt og það kann vel að vera að það taki einhverjum breytingum þar,“ segir Ásmundur Einar.