Saxófónlínan fræga sem fæddist í strætó

Mynd með færslu
 Mynd: George Michael - YouTube

Saxófónlínan fræga sem fæddist í strætó

27.09.2020 - 16:12

Höfundar

Íslenski vinsældalistinn í þessari viku árið 1984 er stútfullur af íslenskum og erlendum listamönnum en HLH flokkurinn, Prince, Tina Turner, Cyndi Lauper og Duran Duran eru meðal þeirra sem eiga lög á listanum. Þá er þar einnig að finna lag með alræmdri saxófónlínu sem varð til í strætó.

Ellismellir eru nýir þættir á dagskrá á Rás 2 á sunnudögum þar sem ferðast er aftur í tíman og vinsældalistar fyrri ára eru skoðaðir. Þennan sunnudaginn er farið aftur til ársins 1984 og rýnt í íslenska vinsældalistann þessa síðustu viku septembermánaðar.

Lag Prince, „Let's go crazy“, var í tuttugasta sæti listans en lagið er annar „singúllinn“ af plötunni Purple Rain. Lagið átti eftir að gera góða hluti og varð annað lag söngvarans til að ná toppsætinu í Bandaríkjunum en á Íslandi náði lagið hæðst í ellefta sæti og sat einungis á listanum í fjórar vikur, eða þangað til það þurfti að víkja fyrir stórsmellinum „Purple Rain“. 

Tina Turner situr í nítjánda sæti með lagið „What's Love Got to Do With It“ sem hafði reyndar upphaflega átt að fara til Cliff Richards en hann hafnaði því. Eurovision-sveitin Bucks Fizz hafði svo tekið upp sína útgáfu en áður en hún kom út var Tina Turner búin að gefa út lagið sem átti eftir að verða einn hennar stærsti smellur. Rod Stewart, Bronski Beat og Spandau Ballet sitja líka á listanum og í fjórtánda sæti er David Bowie með lagið „Blue Jean. Duran Duran var svo á sinni fjórtándu viku á listanum, í þrettánda sæti með lagið „Make Me Smile“. 

Lagið í tólfta sæti gæti svo komið einhverjum á óvart en þar er um að ræða fyrsta íslenska lagið á listanum, lag sem hafði notið gríðarlegra vinsælda þetta ár, „Agadú“ með Ladda. Lagið átti reyndar eftir að lenda á öðrum lista, áratugum síðar, það var nefnilega í þriðja sæti á lista yfir lög sem hlustendur Bergsson og Blöndal á Rás 2 fengu á heilann. 

Elton John, Howard Jones, Miami Sound Machine, George Kranz og Stevie Wonder áttu sína fulltrúa á listanum og Bjartmar Guðlaugsson átti sömuleiðis tvö lög á listanum þessa vikuna, „Sumarliði er fullur“ og „Hippinn“. Í þriðja sæti var það svo drottningin sjálf, Cyndi Lauper, en plata hennar frá árinu 1983, She's so Unusual, hafði náð gríðarlega góðum árangri. Hún var raunar fyrsta plata kvenlistamanns sem náði fjórum lögum í eitt af fimm efstu sætum bandaríska Billboard listans en lögin fjögur voru „Girls Just Want to Have Fun“, „Time after Time“, „All Through the Night“ og lagið sem sat í þriðja sæti íslenska listans, „She Bop“. 

Í öðru sæti listans situr Christopher Hamill sem hafði tekið upp listamannsnafnið Limahl. Hann sló fyrst í gegn með hljómsveitinni Kajagoogoo en eftir að hafa verið rekinn úr bandinu hóf hann sólóferil sem náði hámarki árið 1984 þegar hann átti titillag kvikmyndarinnar Never Ending Story. Platan Don't Suppose náði engu sérstöku flugi en þar mátti finna lagið í öðru sæti listans, „Too Much Trouble“. 

Í toppsætinu finnum við svo hárprúða dúettinn Wham! Helmingur þjóðarinnar fagnaði þessu líklegast en hinn bölvaði í sand og ösku þar sem þú gast jú auðvitað bara stutt annað hvort Wham eða Duran Duran. Lagið sem um er að ræða hér, „Careless Whisper“, komst á toppinn í ríflega tuttugu löndum og seldist afskaplega vel. George Michael hefur sagt frá því að lagið hafi komið til hans þegar hann var á leiðinni í vinnuna sem plötusnúður. Saxófónlínan alræmda spratt fram nær fullsköpuð þegar hann borgaði strætófarið og skömmu síðar tóku hann og Andrew Ridgeley upp „demó“ af laginu. 

Farið var yfir íslenska vinsældarlistann árið 1984 í Ellismellum á Rás 2. Þátturinn er á dagskrá á sunnudögum klukkan 15 en sömuleiðis má hlusta á hann í spilara RÚV. Ef þú vilt fá að heyra ákveðinn lista má senda tillögur á Facebooksíðu Rásar 2. 

Tengdar fréttir

Tónlist

Gullgrafarinn Kanye, methafinn Mariah og Green Day