Persónuvernd skoðar samskipti stofnana við ÍE

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Persónuvernd hefur hafið frumkvæðisathugun á samskiptum Embættis landlæknis, sóttvarnalæknis og Íslenskrar erfðagreiningar. Þá hefur stofnunin einnig verið í samtali við Landspítalann en hluti veirufræðideildar spítalans var flutt yfir í húsakynni Íslenskrar erfðagreiningar í Vatnsmýrinni. „Við viljum vita hvernig heilbrigðisupplýsingar um Íslendinga eru unnar þótt tilgangurinn sé góður,“ segir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar.

Hún segir í samtali við fréttastofu að ekki hafi verið sent erindi til Íslenskrar erfðagreiningar þar sem eingöngu sé verið skoða starfsemi opinberra stofnana og ábyrgð þeirra.

Hún upplýsir jafnframt að stofnuninni hafi borist ein kvörtun vegna meðferðar persónuupplýsinga í tengslum við skimun fyrir COVID-19.

Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, staðfestir í samtali við fréttastofu að embættinu hafi borist spurningar frá Persónuvernd sem varði samskipti milli landlæknis, sóttvarnalæknis og Íslenskrar erfðagreiningar. Verið sé að vinna í svörum en skilafrestur er í byrjun næsta mánaðar.

Íslensk erfðagreining hefur leikið stórt hlutverk í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn. Fyrirtækið hefur skipulagt skimanir til að yfirvöld geti betur áttað sig á útbreiðslu faraldursins,  stóð fyrir mælingu mótefna og hefur aðstoðað við sýnatökur á landamærunum, svo fátt eitt sé nefnt.

Styr stóð um aðkomu fyrirtækisins í byrjun faraldursins í vor þegar það bauðst til aðstoða við skimun fyrir veirunni. Þá vöknuðu spurningar um hvort flokka ætti þetta sem vísindarannsókn og  skimunin væri þar af leiðandi leyfiskyld hjá Vísindasiðanefnd.  Niðurstaða Persónuverndar var síðan á endanum að svo væri ekki.  

Persónuvernd hefur einnig verið í samtali við Landspítalann en hluti sýkla-og veirufræðideildarinnar flutti tímabundið til Íslenskrar erfðagreiningar um miðjan síðasta mánuð. Það var gert til að auka afkastagetu deildarinnar. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi