Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Meta hvort stíga þurfi inn í deilu á vinnumarkaði

Mynd: Þór Ægisson / Þór Ægisson
Stjórnvöld meta nú hvort þau grípi til aðgerða til að tryggja frið á vinnumarkaði. Formenn stjórnarflokkanna áttu fund með fulltrúum atvinnurekenda og launþega í dag. Atkvæðagreiðsla SA um mögulega riftun Lífskjarasamningsins hefst á morgun.

„Ýmislegt hægt að gera til að forða tjóni“

Allt stefnir í átök á vinnumarkaði. SA og Alþýðusamband Íslands greinir á um hvort forsendur samningsins séu brostnar eða ekki. Formenn ríkisstjórnarflokkanna þriggja boðuðu aðila vinnumarkaðarins til fundar í Ráðherrabústaðnum í dag. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði að loknum fundi að tillögur að aðgerðum hefðu ekki verið til umræðu.

„Við nýttum daginn annars vegar í að funda með fulltrúum SA og hins vegar fulltrúum ASÍ. Fyrst og fremst til að hlusta eftir þeirra sjónarmiðum og hvernig þeirra samtöl hafa í raun og veru farið fram undanfarna daga og vikur og að sjálfsögðu eru stjórnvöld að skoða hvað er hægt að gera til að tryggja það að ekki komi hér til átaka á vinnumarkaði. Eins og allir vita þá erum við í því hlutverki að reyna að greiða fyrir því að hlutirnir geti gengið.“

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagðist bjartsýnn til lengri tíma.

„Það er alveg ástæða til að hafa áhyggjur af stöðunni en til lengri tíma er ég bjartsýnn. Ég veit að við munum vinna okkur útúr þessu og það er ýmislegt hægt að gera í stöðunni til að forða tjóni.“

Spurð hvað kæmi til greina að gera sagði Katrín að unnið yrði úr fundum dagsins og samtölum haldið áfram.  Bjarni tók í sama streng og sagði ekki hægt að tala um mögulegar aðgerðir að svo stöddu.

Alvarlegt mál ef ef atvinnurekendur boða til ófriðar

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, sagði að loknum fundi að hann leyfði sér að vera bjartsýnn á að deiluaðilar næðu saman. Hljóðið í forystu ASÍ var hins vegar þungt.  Drífa Snædal, forseti ASÍ, sagði stöðuna alvarlega.

„Það er bara alvarlegt mál ef atvinnurekendur ætla að boða til ófriðar á íslenskum vinnumarkaði og óvissu sem er eiginlega það versta sem hægt er að gera núna.“

Ekki kæmi til greina að endurmeta stöðuna til að mæta kröfum atvinnurekenda.

„Að sjálfsögðu ekki. Þetta er bara algjörlega á ábyrgð atvinnurekenda núna hvort þeir ætli að boða til ófriðar á íslenskum vinnumarkaði. Það er nú ekki oft sem þessi staða er uppi en ábyrgð þeirra er mikil og ég á nú eftir að sjá það að þeir eigi eftir að velja það að hleypa hér öllu í háa loft.“

„Þurfa að hætta að bulla í öllum á þessu landi“

Sólveig Anna Jónsdóttir, annar varaforseti ASÍ, tók í sama streng.
„Við munum aldrei nokkurn tímann samþykkja það að hækkanirnar verði hafðar af læst launaða fólkinu á íslenskum vinnumarkaði, fólkinu sem hefur þurft að fara í verkföll og berjast yfir hverri einustu krónu þannig að nú þurfum við að bíða og sjá hver niðurstaða atkvæðagreiðslu samtakanna verður.“

Hvað þarf að gera til að afstýra átökum á vinnumarkaði?

„Samtök atvinnulífsins þurfa að hætta að bulla í öllum á þessu landi og viðurkenna það sem þau sjálf vita að er sannleikurinn. Að forsendur þessara samninga þær hafa einfaldlega ekki brostið,“ sagði Sólveig Anna.

Halldór Benjamín sagði í kvöldfréttum sjónvarps að samtal við stjórnvöld héldi áfram á morgun. Reynt verði til þrautar að ná niðurstöðu í deilunni. Hann sagði stöðuna snúna og of snemmt væri að fagna sigri.