Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Menningarlíf er snautt án jaðarhópa

Mynd: RÚV / RÚV

Menningarlíf er snautt án jaðarhópa

27.09.2020 - 12:52

Höfundar

Nýlistasafnið kallar eftir tillögum að haustsýningu safnsins og biðlar sérstaklega til jaðarhópa samfélagsins svo sem innflytjenda, hinsegin fólks, fatlaðra og fólks af ólíkum uppruna til að senda inn. Þorsteinn Eyfjörð, sem situr í stjórn safnsins og Chanel Björk Sturludóttir, sem hefur verið fengin inn sem ráðgjafi í verkefninu, tóku sér far með Lestinni og sögðu frá ákallinu.

Þorsteinn segir hugmyndina hafa kviknað hjá stjórn safnsins í kjölfarið á mótmælaöldu sem farið hefur yfir Bandaríkin þar sem lögregluofbeldi í garð svartra þar í landi hefur verið harðlega mótmælt. „Þegar fréttir af mótmælunum fóru að verða daglegt brauð byrjuðum við í stjórninni að velta því fyrir okkur hvernig við sem manneskjur tökum á móti svona upplýsingum og hvað við á Íslandi getum gert. Við ákváðum að gera það sem í okkar valdi stendur til að verða breytingarafl í íslensku menningarlífi.“ Næsta skref var að hafa samband við Chanel. „Við vildum í raun taka þetta skrefinu lengra og fá fólk með meiri reynslu og þekkingu á málinu til aðstoðar. Því maður þarf það, til að læra, að spyrja einhvern,“ segir Þorsteinn. Nýlistasafnið er listamannarekið og var stofnað af þeim sem fundu ekki vettvang fyrir list sína. „Þetta er því ofarlega í huga manns, hvernig við getum aukið flóruna. Það eru svo margar raddir sem maður vill heyra og það er svo gott að gefa þeim pláss.“

Chanel er blandaður Íslendingur og hefur tekið þátt í mörgum verkefnum sem snúa að því að auka fjölmenningu í íslensku samfélagi og inngildingu ólíkra hópa. „Sem blandaður Íslendingur sem hefur fundið sig á jaðrinum hef ég alltaf viljað geta endurspeglað mig í fjölmiðlum og listum. Ég hef haft þessa þörf síðan ég var lítil. Ef þú sérð bara eina týpu af manneskju innan menningarstofnana er eins og þú sért ekki til. Ég myndi segja að það væri ástæða fyrir fólk sem tilheyrir jaðarhópum til að sækja um,“ segir hún.

Ákallið hefur verið auglýst á samfélagsmiðlum og segjast þau hafa fengið mjög góð viðbrögð. Umsóknarfresturinn rennur út fjórða október og hægt er að lesa hér um ákallið og umsóknarferlið á ensku, íslensku, arabísku og pólsku. Einnig er hægt að hafa samband við Nýlistasafnið í tölvupóstfangið [email protected] fyrir frekari upplýsingar. „Ég vona að þetta ákall verði hvatning til annarra menningarstofnana,“ segir Chanel að lokum.

Anna Marsibil Clausen ræddi við Þorstein og Chanel í Lestinni á Rás 1.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Hluti af samfélaginu eða staðalímynd?

Menningarefni

Bækur og myndir til að kynna þér hvítu forréttindin þín