
Fangaskipti samþykkt í Jemen
Stjórnvöld, sem eru studd af hernaðarbandalagi Sádiaraba, samþykktu að skiptast á um 15 þúsund föngum við Húta eftir viðræður í Svíþjóð fyrir tveimur árum. Síðan þá hafa orðið nokkur fangaskipti. Nýja samkomulaginu á að framfylgja innan tveggja vikna, hefur AFP fréttastofan eftir samningamanni úr röðum stjórnvalda. Samningurinn verður tilkynntur formlega í dag að sögn heimildamanns úr röðum Húta.
Viðræðurnar voru haldnar á ótilgreindum stað í Sviss. Þær hófust 18. september, og var í fyrstu rætt um skipti ríflega 1.400 fanga. Meðal þeirra átti að vera bróðir forsetans Abedrabbo Mansour Hadi, sem er í haldi uppreisnarmanna. Það fékkst ekki samþykkt að sinni að sögn samningamanns úr röðum stjórnvalda. Alþjóðanefnd Rauða krossins hefur umsjón með fangaskiptunum.
Tugþúsundir hafa fallið í borgarastríðinu í Jemen. Langflest fórnarlambanna eru almennir borgarar. Sameinuðu þjóðirnar segja mannúðarástandið í landinu það versta í heiminum.