Þór/KA úr fallsæti eftir sigur gegn FH

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Þór/KA úr fallsæti eftir sigur gegn FH

26.09.2020 - 17:38
FH tók á móti Þór/KA í afar mikilvægum leik í dag. Eftir að Þróttur vann Selfoss fyrr í dag var ljóst að liðið sem myndi tapa leiknum í Kaplakrika yrði í fallsæti eftir umferðina.

Fyrsta mark leiksins kom á 15. mínútu og það voru gestirnir frá Akureyri sem skoruðu. Berglind Baldursdóttir skoraði af stuttu færi eftir að FH-ingum mistókst að koma boltanum frá. FH jafnaði leikinn skömmu síðar þegar Phoenetia Brown skoraði úr víti. Þrátt fyrir nokkur fín færi náðu liðin ekki að skora meira í fyrri hálfleik og staðan því 1 - 1 í hálfleik. 

FH-konur byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti en náðu ekki að nýta sér nokkrar álitlegar sóknir. Á 65. mínútu komust gestirnir aftur yfir með marki frá Margréti Árnadóttur. Reyndist þetta sigurmark leiksins og fyrsti útisigur Þór/KA á tímabilinu því staðreynd. 

Þór/KA lyfti sér af fallsvæðinu með sigrinum á meðan að staða FH er nokkuð slæm. Liðið situr nú í 9. sæti deildarinnar og á erfiða leiki framundan.