Smit í Lundarskóla á Akureyri

26.09.2020 - 14:23
default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Starfsmaður Lundarskóla á Akureyri hefur greinst með kórónuveiruna. Skólinn verður lokaður til 1.október þar sem kennarar skólans fara í sóttkví á meðan unnið er að smitrakningu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá skólanum í dag.  Að kröfu sóttvarnalæknis og til að gæta fyllsta öryggis þurfa nemendur í 1.-6. bekk að vera heima meðan á smitrakningu stendur eða að öllu óbreyttu til fimmtudagsins 1. október. Lundarskóli við Dalsbraut verður því lokaður næstu daga.

Að sögn Karls Frímannssonar, sviðsstjóra fræðslusviðs Akureyrarbæjar var starfsmaðurinn seinast við störf á þriðjudag og fann þá fyrir einkennum. Starfsmaðurinn hafði aðallega verið í samskiptum við kennara og því þurfi þeir að fara i sóttkví í að minnsta kosti viku. Því verði skólinn lokaður til 1. október. Hann segir ekki líkur á að börn þurfi að fara í sóttkví vegna samskipta við starfsmanninn.

Hann segir að starfsmaðurinn hafi verið í Reykjavík um seinustu helgi og umgengist fólk sem síðan veiktist í vikunni. Því sé slóðin nokkuð augljós og afmörkuð. Unnið sé að rakningu í samstarfi við almannavarnir og rakningarteymið. 

Ítilkynningunni segir að starfsmaðurinn hafi ekki verið í snertingu eða samskiptum við nemendur frá því hann var útsettur fyrir smiti og því sé fyrst og fremst um varúðarráðstöfun að ræða. Skólastarf 7.-10. bekkjar Lundarskóla, sem fer fram annars staðar í bænum, raskast ekki og heldur áfram óbreytt. Karl segir að ekki sé samgangur á milli starfsmanna deilda skólans og því teljist það óhætt.

 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi