Önnur ákæra fyrir Kósóvó-dómstól í Haag

26.09.2020 - 01:24
epa08696463 Police officers of European Union Rule of Law Mission in Kosovo (EULEX) arrest Hysni Gucati (C) head of the War Veterans Organization of the Kosovo Liberation Army (KLA) in Pristina, Kosovo, 25 September 2020. Media reports state Gucati was arrested after the KLA War Veterans Organization urged Kosovo media to publish leaked documents of the Hague war crimes cases.  EPA-EFE/RIDVAN SLIVOVA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Yfirmaður hóps uppgjafahermanna í Kósóvóstríðinu var handtekinn í gær og sendur fyrir dóm í Haag. Hann er grunaður um að hafa reynt að hafa áhrif á vitni. Fyrrum hermenn í Kósóvó greindu öryggislögreglu Evrópusambandsins frá því að þeir hafi fengið ómerkta böggla sem innihéldu trúnaðarupplýsingar frá rannsakendum í Haag. Upplýsingarnar voru um vitni sem lúta sérstakri vernd og komandi ákærur, hefur AFP fréttastofan eftir þeim.

Hysni Gucati, yfirmaður hóps uppgjafahermanna, var handtekinn af öryggislögreglunni. Handtökuskipun var gefin út vegna gruns um brot gegn réttarvörslu með því að hafa áhrif á vitni og brjóta gegn leynd á málflutningi. 
Gucati og aðrir hermenn í hópnum voru í frelsisher Kósóvó, KLA. Herinn samanstóð af Kósóvó-Albönum sem kröfðust sjálfstæðis frá Serbum.

Nokkrir hershöfðingjar KLA eru til rannsóknar hjá dómstólnum í Haag sem skipaður var til þess að taka fyrir stríðsglæpi í borgarastríðinu í Kósóvó undir lok síðustu aldar. Dómstóllinn byggir á kósóvskum lögum, en er í Hollandi til þess að verja vitni.

Salih Mustafa, fyrrverandi herforingi í KLA, varð í fyrradag fyrstur til að vera handtekinn og ákærður af saksóknurum dómstólsins vegna stríðsglæpa í borgarastríðinu.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi