Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kári kemur frönsku ferðamönnunum til varnar

26.09.2020 - 15:16
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hafnar því að tveir franskir ferðamenn séu ábyrgir fyrir þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins sem nú gengur yfir landið. Fjölmargir erlendir fjölmiðlar tóku upp frétt þess efnis að rekja mætti meira en hundrað smit á Íslandi til ferðamannannna tveggja.

Breska blaðið Daily Mail greindi meðal annars frá málinu á vef sínum sem og dönsku blöðin BT og Ekstra Bladet.

Þá var fréttina að finna í daglegri textalýsingu Guardian,  hjá Telegraph og DR þar sem fylgst er með framvindu faraldursins. Víða var vitnað til fréttar visir.is með viðtali við Þórólf Guðnason, sóttvarnalækni, með fyrirsögninni: „Brutu sóttvarnareglur og nú hafa yfir 100 smitast.“

Fram hefur komið í fjölmiðlum að veiran sem nú greinist í langflestum innanlandssmitum sé með sömu „fingraför“ og veiran sem greindist í Frökkunum tveimur.  Í ljós kom að lögreglan hafði haft afskipti af þeim þar sem þeir fylgdu ekki fyrirmælum en það hefði verið vegna vankunnáttu og því hefði ekki þótt ástæða til að sekta þá. Þeir voru með húsnæði á eigin vegum, dvöldu hér í stuttan tíma en brutu ekki einangrun.

Fréttin vakti athygli í Frakklandi en fólkið kom til landsins um miðjan ágúst og fór í gegnum skimun á landamærunum til að þurfa ekki að fara í tveggja vikna sóttkví. 

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir í samtali við frönsku fréttaveituna AFP að honum finnist ósanngjarnt að skella skuldinni á Frakkanna tvo. „Sú kenning að þeir hafi rofið einangrun er ekki studd neinum gögnum,“ segir Kári.  „Það er hugsanlegt og jafnvel líklegra að það hafi aðrir í flugvél þeirra sem voru sýktir en að veiran hjá þeim hafi ekki greinst við landamæraskimun.“ 

Kári segir að skella skuldinni á frönsku ferðamennina tvo sé ósanngjarnt og eigi sér enga stoð í raunveruleikanum. „Og ég mun ekki taka þátt í slíku.“