ÍBV eina taplausa lið deildarinnar

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

ÍBV eina taplausa lið deildarinnar

26.09.2020 - 16:38
ÍBV og Valur áttust við í hörkuleik í Olís-deild kvenna í dag. Bæði lið voru taplaus fyrir leikinn í dag.

Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og skiptust þau á að vera yfir nær allan hálfleikinn. Staðan eftir fyrri hálfleik var 10 - 11 fyrir Val. Heimakonur mættu ákveðnar til leiks í seinni hálfleik og skoruðu fjögur af fyrstu fimm mörkum hálfleiksins og voru því komnar með tveggja marka forystu 14 - 12. ÍBV lét forystuna aldrei af hendi og þegar að um sjö mínútur voru eftir af leiknum var staðan orðin 22 - 18 fyrir ÍBV. Valskonur gáfust þó ekki upp og þegar að tæpar tvær mínútur voru eftir af leiknum var staðan 23 - 22 fyrir ÍBV. Bæði lið fengu þá ágætis skottækifæri án þess þó að skora og leikmenn ÍBV fögnuðu því tveimur mikilvægum stigum í toppbaráttunni í leikslok. 

Sunna Jónsdóttir var öflug í sóknarleik ÍBV og skoraði 10 mörk og Birna Berg Haraldsdóttir skoraði sex mörk. Marta Wawrzykowska varði níu skot í marki ÍBV. Hjá Val voru þær Mariam Eradze og Þórey Anna Ásgeirsdóttir markahæstir með fjögur mörk og Saga Sif Gísladóttir varði tíu skot. 

Er þetta fyrsta tap Vals í deildinni en liðið hafði unnið fyrstu tvo leiki sína. Lið ÍBV er ennþá taplaust en gerði hinsvegar jafntefli í fyrstu umferð og er því með fimm stig eftir þrjár umferðir.