Helgi Hrafn og Smári ætla ekki í framboð

26.09.2020 - 08:08
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Helgi Hrafn Gunnarsson og Smári McCarthy, þingmenn Pírata ætla ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi setu á Alþingi í næstu Alþingiskosningum. Þeir ætla þó áfram að starfa innan Pírata.

Þeir segja ákvarðanir þeirra teknar meðal annars vegna þess að hvorugum hugnist að ílengjast um of á þingi, en jafnframt að umbótamálum þurfi ekki síður að sinna utan veggja Alþingis.

Rætt er við Smára og Helga í Fréttablaðinu í dag en flokkurinn gaf einnig út yfirlýsingu þess efnis í morgun. Eitt ár er til kosninga og um helgina fer fram aðalfundur Pírata þar sem kosið verður í ýmis embætti innan flokksins. Helgi tók fyrst sæti á þingi eftir kosningar árið 2013, en gaf ekki kost á sér í kosningunum 2016, en í kjölfar þeirra tók Smári sæti á Alþingi.

Í viðtali við Fréttablaðið í morgun segir Smári að sér finnist hugmyndin um atvinnupólitíkusa afar óheillandi og að lýðræðið gjaldi fyrir það að fólk sé of lengi á þingi. Einstaklingar sem sitja mörg kjörtímabil komi ekki með neitt ferskt að borðinu. 

Helgi og Smári segjast ekki hafa ákveðið hvað taki við að þingmennsku lokinni en ótal margt komi til greina. 

 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi