Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Afar aðgengilegt, afar undarlegt

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Afar aðgengilegt, afar undarlegt

26.09.2020 - 14:03

Höfundar

Lyftutónlist er sjö laga stuttbreiðskífa eftir Moses Hightower og plata vikunnar á Rás 2. Hún er í senn ægiskrítin og aðgengileg.

Moses Hightower hefur náð að hitta á þann allra furðulegasta skurðpunkt sem ég hef rekist á í dægurtónlistarlandslaginu. Svei mér þá. Tónlist þeirra er einkar áhlýðileg og aðgengileg og því til sönnunar nýtur sveitin lýðhylli. En um leið er hún einkar undarleg, stórfurðuleg eiginlega. Taktskiptingar, söngur, textar ... allt er þetta í einstökum fasa verður að segjast en samt, allan tímann er þetta „í lagi“ og hljómar t.d. prýðilega í útvarpi. Eða við arineldinn jafnvel. Hvernig má þetta vera?

Lyftutónlist er sjö laga plata og röskar 22 mínútur, situr einhvers staðar á milli stutt- og breiðskífu. Tónlistin er kunnugleg, en mér finnst þó eins og þeir félagar hafi aldrei farið jafn langt út að brúninni og nú. Sveitin er nú tríó, Magnús Trygvason Eliassen ber húðir (finnst eins og ég hafi heyrt þetta nafn einhvers staðar áður), Andri Ólafsson plokkar bassa og syngur og Steingrímur Karl Teague leikur á hljómborð og syngur.

„Þetta hjarta“ opnar plötuna. Svona hefði Steely Dan hljómað ef Captain Beefheart hefði haldið um stjórnartaumana. Djassað og sálarlegið, trommur áberandi – drífandi en um leið höktandi. Mjög undarleg framvinda út í gegn og söngur svona gægist upp, hálfkæfður á köflum. Velkominn í heim Moses Hightower! Titillagið er næst, öllu eðlilegra (á mælikvarða Moses Hightower a.m.k.). Falleg ballaða sem þokast ofurvarlega áfram og hljómur gríðargóður (upptaka og frágangur er alveg 10/10). Um miðbikið er eins og lagið sé að lognast út af en svo er það dregið áfram á ný. Þessar tilraunir minna mig dálítið á Field Music frá Sunderland en leitun er að flottari poppvísindamönnum en bræðrunum sem þá merkissveit skipa.

„Stundum“ er gáskafengið skrítipopp, valhoppar áfram einhvern veginn en aldrei skal maður hafa hugmynd um hvert er á endanum farið. Allar skiptingar, taktar og hljóðfæranotkun með óvæntum hætti. Ég veit að þetta eru allt saman sprenglærðir menn og það er einmitt það sem gefur þeim færi á að toga og teygja formið með þessum hætti. Þannig að stundum finnst manni eins og lögin hafi lent í þeytivindu. „Framkvæmdir“ er enn ein furðusmíðin. Snilldarlegt slagverk og hljóðmottan öll er merkileg. Ótrúleg eiginlega. Lagið mjakast áfram með vélrænum hætti, feitt hljómborð og taktvisst myndar dulítið ógnvekjandi stemningu og Steingrímur tónar yfir texta um Jesú, syndir, tröll og ýmislegt fleira. Textar allir snilldarlegir að vanda. Þetta lag er svo sérstakt að ég veit eiginlega ekki hvað ég er að segja lengur.  

Hvernig má þetta vera hrópaði ég í upphafi en ég ætla ekki einu sinni að gera tilraun til að koma með eitthvað svar, utan þessar pælingar sem ég hef reifað. Að kalla plötuna Lyftutónlist sýnir vel sjálfsháð og glettni enda tónlistin ansi langt frá því að vera yfirborðsleg eður bakgrunnsefni. Nei, hún er djúp og margflókin eins og ég hef sagt milljón sinnum en eitthvað svo hrein og bein líka.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Lyftutónlist með Moses Hightower

Tónlist

Moses Hightower í beinni frá Hljómahöllinni

Tónlist

Hljómsveitin vinnur á jarðsögulegum hraða

Popptónlist

Moses Hightower í Stúdíó 12