Slegist um kettlinga á samfélagsmiðlum

25.09.2020 - 11:37
Mynd: Kattholt.is / .
Venjulega er offramboð á köttum á landinu í leit að eigendum en síðustu mánuði hefur orðið vart við mikinn skort, ekki síst á kettlingum. Það er slegist um þá fáu kettlinga sem eru auglýstir gefins á samfélagsmiðlum og sömu sögu má segja úr Kattholti sem hefur almennt verið í vandræðum með of marga ketti á þessum árstíma.

Af 20 efstu póstunum í Facebook-hópnum „Gefins kettir í leit að góðu heimili“ er aðeins einn sem auglýsir kettlinga sem vantar heimili, en hinir 19 óska eftir að taka að sér kettling eða kött. Jóhanna Ása Evensen rekstrarstjóri í Kattholti segir að sumarið hafi verið afar sérstakt með tilliti til fjölda kettlinga í umferð. „Sumartíminn er fengitími kattarins þannig hann er mikið að gjóta á sumrin. Flestöll ár er alltaf stútfullt af köttum hjá okkur en ekki í sumar.“ Ein skýringin sem Jóhanna telur geta legið þessu til grundvallar er nýleg reglugerð Reykjavíkurborgar um að gelda eigi alla fressketti. Hún segir þetta bæði gott og slæmt. „Það er gott að fresskettir séu geldir þannig það sé ekki offramboð. En líka slæmt að fjölskyldur geti ekki eignast kettling sem er náttúrulega dásamleg fjölskylduviðbót.“

Eins og stendur eru sjö kettir í heimilisleit sem dvelja í Kattholti. „Það eru samt hjá okkur 20 kettir sem eru annað hvort í mönnun eða að bíða eftir að vera tilbúnir í heimilisleit. En engir kettlingar.“ Kisurnar eru á aldrinum eins til sjö ára. „Þótt eftirspurnin sé mikil er enn þá hægt að ættleiða hjá okkur.“ Rati kettir til Kattholts sem eru ekki örmerktir er alltaf auglýst eftir eigandanum. Ef enginn ber sig eftir dýrinu innan tveggja vikna er svo hægt að ættleiða hana. Einnig er hægt að ættleiða ketti hjá félaginu Villiköttum og svo er hægt að kaupa hreinræktaða ketti hjá Kynjaköttum.

Andri Freyr Viðarsson og Hrafnhildur Halldórsdóttir ræddu við Jóhönnu Ásu Evensen í Síðdegisútvarpinu.

davidrg's picture
Davíð Roach Gunnarsson
vefritstjórn
andriv's picture
Andri Freyr Viðarsson
hrafnhih's picture
Hrafnhildur Halldórsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi