Sir David Attenborough sló met Jennifer Aniston

25.09.2020 - 18:35
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot af Instagram - RÚV
Sir David Attenborough hefur lifað tímana tvenna við að koma boðskap sínum og fræðslu um náttúru og dýralíf til skila. Þrátt fyrir að vera orðinn 94 ára gerir hann hvað hann getur til að fræða komandi kynslóðir um líf og breytingar í náttúrunni. Kappinn knái sló met á samfélagsmiðlinum Instagram í vikunni og velti þar bandarísku leikkonunni Jennier Aniston úr sessi.

Fram til þessa hefur Sir David fyrst og fremst reitt sig á sjónvarp og útvarp til að miðla ótrúlegu mynd- og fræðsluefni til áhorfenda, og það með prýðilegum árangri. Ungt fólk fylgist þó sífellt minna með útvarpi og sjónvarpi, og nýtir sér frekar samfélagsmiðla til að verða sér út um upplýsingar og skemmtiefni.

Til að ná til ungs fólks skráði Sir David sig á Instagram nýverið. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Á aðeins fjórum klukkustundum og fjörutíu og fjórum mínútum höfðu milljón manns fylgt síðu hans. BBC greinir frá.  Enginn notandi Instagram hefur náð einni milljón fylgjenda á eins skömmum tíma. Metið er staðfest af heimsmetabók Guinness.

Baráttan snýst um samskipti

Í fyrsta innslagi sínu á miðlinum sagði David að stóra áskorunin við að bjarga plánetunni snerist orðið um samskipti. Miðilinn ætlar hann að nota til að sýna fylgjendum sínum hvar vandamálin liggja í náttúrunni og hvernig hægt sé að takast á við þau.

„Ég geri þessa breytingu og feta ótroðna slóð samskipta vegna þess að eins og við vitum öll er heimurinn í vanda. Heimsálfur loga, jöklar bráðna, kóralrif eru að deyja, tegundir fiska eru að hverfa úr höfunum, listinn er endalaus. Áskorunin við að bjarga heiminum er fólgin í samskiptum,“  segir Attenborough.

Fyrir átti bandaríska leikkonan Jennifer Aniston metið yfir tíma þar til Instagram-fylgjendur ná einni milljón. Það tók hana fimm klukkustundir og sextán mínútur frá því að hún skráði sig á miðilinn þar til fylgjendur hennar náðu einni milljón. Það met er rétt tæplega árs gamalt.

Fylgjendur Attenborough voru orðnir tvær og hálf milljón á innan við sólarhring. Hann á hins vegar talsvert langt í land með að ná knattspyrnumanninum portúgalska Cristiano Ronaldo, en hann er með rúmlega 238 milljónir fylgjenda á sínum Instagram-snærum.

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi