Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Kim biður suðurkóresku þjóðina afsökunar

25.09.2020 - 06:32
epa08693043 Chinese fishing boats operate in North Korean waters near the de facto inter-Korean sea border in the Yellow Sea, 24 September 2020. The boat was boarded by a South Korean official who went missing on 21 September and was allegedly killed by North Korean soldiers the following day, according to South Korean officials.  EPA-EFE/YONHAP SOUTH KOREA OUT
 Mynd: EPA-EFE - YNA
Kim Jong Un, leiðtogi Norður-Kóreu, sendi suðurkóresku þjóðinni og Moon Jae-in forseta Suður-Kóreu afsökunarbeiðni í morgun. AFP fréttastofan hefur þetta eftir fréttatilkynningu frá Bláa húsinu í Suður-Kóreu.

Kim baðst þar afsökunar á hrottalegu morði norðurkóreskra hermanna á Suður-Kóreumanni á hafsvæði Norður-Kóreu. Kim sagðist þykja það leitt að hafa valdið Moon forseta og suðurkóresku þjóðinni vonbrigðum.

Sendingin frá Norður-Kóreu innihélt einnig skýringar þeirra á því sem gerðist. Þar sagði að hermennirnir hafi skotið yfir tíu skotum að Suður-Kóreumanninum, samkvæmt skipunum þar um. Loks var kveikt í hlutnum sem maðurinn hélt sér á floti með. 

Í yfirlýsingu suðurkóreska varnarmálaráðuneytisins í gær segir að maðurinn hafi unnið í sjávarútvegsráðuneyti Suður-Kóreu. Hann var um borð í rannsóknarskipi sem sigldi við eyjuna Yeonpyeong vestan við Kóreuskaga, við landamæri ríkjanna, á þriðjudag. Þar lét hann sig hverfa og telur herforingjaráðið að hann hafi ætlað að flýja yfir til Norður-Kóreu.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV