Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Íbúi á Eir með COVID-19

25.09.2020 - 15:41
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Einn íbúi á hjúkrunarheimilinu Eir greindist með COVID-19 í dag. Í tilkynningu frá Eir kemur fram að sá smitaði sé í einangrun og ekki með nein einkenni sjúkdómsins. Líðan hans sé eftir atvikum góð.

Fréttastofa greindi frá því í gær að einn starfsmaður hjúkrunarheimilisins hefði greinst með sjúkdóminn í fyrradag. Íbúinn sem nú hefur greinst býr á sömu deild og starfsmaðurinn starfar. Þórdís Tómasdóttir, verkefnastjóri og teymisstjóri sýkingavarna á Eir, segir í samtali við fréttastofu að ekki sé hægt að fullyrða um að íbúinn hafi smitast af starfsmanninum: „Við sjáum ekki beina útsetningu, en þó er ekki hægt að útloka það,“ segir hún. Rakningateymi almannavarna vinni nú að því að rekja smitið. 

Níu íbúar og fimm starfsmenn á hjúkrunarheimilinu eru í sóttkví og A-húsi á 2. hæð Eirar hefur verið lokað fyrir heimsóknir.