Héraðsdómur dæmir ummæli á Facebook dauð og ómerk

25.09.2020 - 21:22
Mynd með færslu
 Mynd: Pexels - Pixabay
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi nýverið þrenn ummæli, sem karlmaður lét falla um barnsmóður og fyrrverandi sambýliskonu sonar síns á Facebook, dauð og ómerk. Honum var jafnframt gert að greiða konunni 250 þúsund krónur í miskabætur. Dómurinn hafnaði kröfu konunnar um að manninum yrði gert að birta dóminn á Facebook-síðu sinni.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að grunnt sé á því góða í samskiptum konunnar og fjölskyldu sambýlismannsins fyrrverandi.  Tilefni ummælanna hafi verið átök í kringum umgengni barnsföður konunnar og fyrrverandi sambýlismanns við son þeirra. 

Héraðsdómur segir að umfjöllun um þá deilu sé ekki hluti af umræðu um þjóðfélagsleg málefni. Hún lúti að einkamálefnum og deilum milli aðila máls og annarra sem tengjast þeim. Slíkt málefni eigi ekkert erindi í opinbera umræðu enda hafi hvorki konan né nokkur annar vakið máls á deilunum opinberlega eða um þær verið fjallað á annan hátt á opinberum vettvangi.

Dómurinn segir að ummæli mannsins á Facebook hafi falið í sér aðdróttanir og viðkvæma einkahagi konunnar sem ekkert erindi eigi á opinberan vettvang. Þau hafi verið ærumeiðandi og brotið gegn rétti hennar til friðhelgi einkalífs og æruverndar. 

Dómurinn horfði hins vegar til þess að ummælin hafi verið sett fram á Facebook síðu mannsins sem sé vissulega opinber vettvangur. Á hinn bóginn hafi útbreiðsla þeirra verið mun minni en ef þau hefðu birst í fjölmiðli.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi