Áhrif veirunnar á LSH mikið áhyggjuefni

25.09.2020 - 15:56
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti í morgun aðgerðir í ríkisstjórn varðandi áframhaldandi samkomutakmarkanir á skemmtistöðum og krám. Krám og skemmtistöðum á öllu landinu verður gert að tryggja hverjum gesti sæti inni á staðnum, metri verði á milli ótengdra og skellt verður í lás klukkan 23 eins og hingað til. Hún segir aðaláhyggjuefni dagsins vera hversu margir starfsmenn Landspítala hafi smitast undanfarna daga.

Minnisblað sóttvarnalæknis var lagt fyrir ríkisstjórn, samþykkti heilbrigðisráðherra það og hefur efni þess þegar verið auglýst. Svandís telur að stærsta áhyggjuefnið nú sé hversu margir starfsmenn Landspítala séu smitaðir eða í sóttkví.

„Við sjáum að það er vöxtur, en hann er línulegur, það er ekki veldisvöxtur. Hann er línulegur og í dag erum við að sjá að 60 prósent af þessum smitum eru í sóttkví sem skiptir alltaf máli að skoða þá tölu sérstaklega. Það sem er sérstakt áhyggjuefni er fjöldi smita hjá starfsfólki á Landspítala og áhrifin á starfsemina þar. Margir sem eru þar líka í sóttkví þannig að það er aðaláhyggjuefni dagsins en að öðru leyti þá fetum við þetta frá degi til dags og vonumst til að geta flatt út kúrfuna,“ segir Svandís.

Hún segir að ekki liggi fyrir neinar sérstakar aðgerðir til að bregðast við stöðunni á Landspítala umfram það sem framkvæmdastjórn spítalans hefur þegar yfir að ráða. 

Fáðu þér nú sæti, tökum slag

Breytingin gagnvart skemmtistöðum felst fyrst og fremst í því að aðgerðir ná nú ekki aðeins til kráa og skemmtistaða á höfuðborgarsvæðinu heldur á landinu í heild, en fyrri aðgerðir sem kveða á um að skemmtistaðir og krár á höfuðborgarsvæðinu skuli hafa lokað gilda fram yfir helgina. Í næstu viku taka gildi reglur sem fela í sér að skemmtistaðir og krár megi hafa opið en sé skylt að tryggja öllum gestum sínum sæti inni á staðnum með að minnsta kosti metra á milli óskyldra og ótengdra aðila. Aðrar breytingar eru ekki á teikniborðinu að sinni.

„Þetta er í rauninni það eina sem olli breytingum á auglýsingunni þannig að öðru leyti er hann (sóttvarnalæknir) bara að fara yfir stöðuna í sínu minnisblaði með ýmsa starfsemi í samfélaginu en þetta eru einu breytingarnar sem við erum að gera að þessu sinni,“ segir Svandís. 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi