„Við höfum aldrei náð að anna eftirspurn eftir ráðgjöf“

24.09.2020 - 15:22
Kristín I. Pálsdóttir, talskona Rótarinnar.
 Mynd: Guðmundur Bergkvist
„Ég veit það ekki, við höfum aldrei náð að anna eftirspurn,“ segir Kristín I. Pálsdóttir talskona Rótarinnar – félags um konur, áföll og vímugjafa, aðspurð um hversu margar konur þurfi á ráðgjöf þeirra að halda. „Það hefur alltaf verið biðlisti.“ Rótin vinnur nú að því að koma á fót Ástuhúsi, göngudeild með fjölþættri þjónustu fyrir konur sem hafa verið í fíknivanda og eiga áfallasögu að baki. Vonast er til að hægt verði að opna það fyrir jól.

„Hugmyndin er að byggja upp fjölþætta þjónustu fyrir konur sem hafa verið í fíknivanda og hafa áfallasögu. Fíknimeðferð hefur verið svolítið fókuseruð á fíkn sem sérstakan sjúkdóm en við lítum á og sinnum fíkn sem fjölþættum vanda og afleiðingum af öðrum vanda til dæmis ofbeldi og félagslegum vanda,“ segir Kristín. 

Horfa verði heildstætt á vandann

Margir sem komi í meðferð vegna fíknar séu með fleiri vandamál eins og geðræn vandamál og áfallastreituröskun. „Við erum að hugsa um að þjóna konum sem konum en ekki út frá einstaka vandamáli,“ segir Kristín. Ekki dugi til að taka á einu vandamáli heldur þurfi að taka á öllu í einu og vinna saman á því sem sé að trufla líf kvenna sem hafi orðið fyrir ofbeldi og áföllum og með vímuefnavanda. „Ætlunin er að byggja upp þjónustu sem er meira aðgengileg en að þurfa að leggjast inn. Þetta er hugsað sem göngudeildarþjónusta,“ segir Kristín um Ástuhús.  

Styrkur dugar fyrir tæpum einum starfsmanni

Sú vinna sé að fara af stað og fékk Rótin í vikunni 10 milljón króna styrk frá heilbrigðisráðuneytinu til uppbyggingar Ástuhúss. „Við fáum táknrænan styrk frá ráðuneytinu sem ætti að dekka tæplega einn starfsmann. Við erum að vinna í því að finna húsnæði og skipuleggja hvaða þjónustu við getum verið með til að byrja með. Við höfum verið með ráðgjafa í Bjarkarhlíð en ekki tekist nógu vel að fá fjármagn til að halda því gangandi. Það er mikil þörf fyrir ráðgjöf eins og við höfum verið að bjóða í Bjarkarhlíð og mjög bagalegt hve illa gengur að fá fjármögnun til að halda þessari þjónustu óbrotinni uppi. Það er mjög mikil þörf hana,“ segir Kristín.  

Hversu margar konur þurfa á þjónustunni að halda? .„Við vitum það ekki. Við höfum aldrei náð að anna eftirspurn fyrir ráðgjöfina. Það hefur alltaf verið biðlisti. Við höfum fengið minni styrki hér og þar en aldrei nóg til að halda uppi þeirri þjónustu sem við viljum halda upp, eins og í Bjarkarhlíð.  Við erum að bíða eftir fjármagni í það en það er ekki beint Ástuhús en hluti af því sem verður í boði þar, eins og einstaklingsráðgjöf.“

Vilja vera miðsvæðis og aðgengileg

Aðspurð um framtíðarstaðsetningu Ástuhúss segir Kristín að verið sé að leita að hentugum stað. „Við viljum vera miðsvæðis og aðgengileg samgöngum. Við erum að leita miðað við fjármagn, að stað þar sem við getum verið með einstaklingsráðgjöf, einhverja hópastarfsemi líka og námskeið. Við erum ekki að leita að stóru húsnæði í bili. Við höfum rætt við Reykjavíkurborg og höldum því áfram, um það hvort borgin geti ekki komið inn í þetta verkefni líka.“
 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi