Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

„Við erum að bjóða frið á vinnumarkaði“

24.09.2020 - 18:26
Mynd: RÚV / RÚV
Langtíma forsendur Lífskjarasamningsins eiga jafnvel betur við núna en fyrir COVID. Þetta segir Drífa Snædal, forseti ASÍ, en Samtök atvinnulífsins telja forsendur samningsins brostnar. Kosið verður um það innan SA hvort samningum verði sagt upp.

Fundur launa- og forsendunefnda ASÍ og SA lauk án niðurstöðu síðdegis. Drífa segir að hún sé búin að kalla saman samninganefnd ASÍ sem fer yfir stöðuna í fyrramálið. En hver er þá framtíð Lífskjarasamningsins miðað við stöðuna núna?

„Hún ræðst fyrir lok mánaðar. Eins og skrifað er inn í samninginn, ef forsendir eru brostnar getur hvor aðili um sig sagt honum upp fyrir lok mánaðarins. Boltinn er hjá Samtökum atvinnulífsins núna,“ segir Drífa.

Hún segir ASÍ hafa farið í ítarlega greiningu á forsendum og komist að þeirri niðurstöðu að þær haldi velli. „Við erum að bjóða frið á vinnumarkaði,“ segir Drífa.

En eru ekki allt önnur staða í samfélaginu núna miðað við hvernig var þegar samningurinn var gerður?

„Það má líka segja að forsendur sem þessi kjarasamningur hvílir á, til langs tíma, og sú grunnhugsun að hækka mest þá lægst launuðu, á jafnvel betur við í dag en fyrir COVID,“ segir Drífa Snædal.