Trump: Verðum að sjá hvað gerist eftir kosningar

epa08692336 US President Donald J. Trump speaks during a news conference in the Brady Press Briefing Room of the White House in Washington, DC, USA, on 23 September 2020.  EPA-EFE/Yuri Gripas / POOL
 Mynd: EPA-EFE - ABACA POOL
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, neitar enn að staðfesta hvort hann hann sé reiðubúinn að tryggja friðsöm valdaskipti ef Joe Biden verður kjörinn forseti í nóvember. „Við verðum að sjá hvað gerist," var svar forsetans við spurningu blaðamanns á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í gær. 

Trump hefur ítrekað gefið það út undanfarnar vikur að svindlað verði í kosningunum eftir um sex vikur. Hann hefur sérstaklega minnst á póstatkvæði, sem verða að líkindum fleiri í ár en nokkru sinni áður vegna kórónuveirufaraldursins. Hann sagði á fundinum í gær að hann hafi kvartað sáran undan kjörseðlum. Auðvelt sé að eiga við póstatkvæðaseðla og segir Trump að Demókratar ætli að nýta þá til þess að sveigja úrslit kosninganna til sín. Hann segir þetta þó ekki eiga við utankjörfundaratkvæði, þó þau séu af sama meiði. Trump þarf sjálfur að greiða atkvæði utan kjörfundar, þar sem lögheimili hans er í Flórída. 

Á blaðamannafundinum í gær virtist Trump leggja það til að póstatkvæðin yrðu öll tekin úr umferð. „Losið ykkur við kjörseðlana og þá verða mjög friðsöm - þá verða engin stjórnarskipti, heldur áframhaldandi stjórn," sagði hann á fundinum.

Trump hefur einnig lagt mikla áherslu á að setja nýjan hæstaréttardómara í embætti hið fyrsta eftir andlát Ruth Bader Ginsburg. Trump telur ansi líklegt að niðurstaða kosninganna verði útkljáð fyrir hæstarétti. Demókratar krefjast þess að beðið sé með að tilnefna dómara þar til eftir kosningar, enda hefð fyrir því að tilnefna ekki dómara á kosningaári.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi