Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tilbúin að herða aðgerðir ef þörf krefur

24.09.2020 - 22:33
Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót / RÚV
Níu hafa greinst með COVID-19 í Stykkishólmi. Skimun heldur áfram þar næstu daga en bæjarstjórinn segir enn óvissu upp hvað viðkemur útbreiðslu veirunnar í bænum.

Tveir greindust jákvæðir af þeim rúmlega fjörutíu sem fóru í skimun í Stykkishólmi í gær. Báðir voru í sóttkví. Níu íbúar Stykkishólms eru nú smitaðir en einn þeirra er í einangrun í Reykjavík. 23 eru í sóttkví. 

Jakob Björgvin Jakobsson er bæjarstjóri í Stykkishólmi. 

„Við erum á réttri leið og það er jákvætt að þeir sem voru smitaðir voru í sóttkví. Það er enn ákveðin óvissa í loftinu en við fáum að vita betur á morgun þegar sýnatökur dagsins í dag, þegar við fáum niðurstöðu úr þeim á morgun.“

Jakob segir að fólk sem hefur greinst í Stykkishólmi sé fyrst og fremst á miðjum aldri og upp úr.

Herða ekki á aðgerðum að svo stöddu

Fjórtán fóru í skimun á heilsugæslunni í Stykkishólmi í dag og eru minnst tíu til viðbótar skráðir á morgun. Til varúðarráðstafana hefur verið gripið, meðal annars með heimsóknabanni á dvalarheimili aldraðra og hólfaskiptingu í skólum Aðgerðastjórn fundaði í morgun en ákveðið var að herða ekki á að svo stöddu. 

Í grunnskólanum í Stykkishólmi var gripið til hólfaskiptingar á öllum stigum og fjarkennslu í efstu bekkjum á innan við sólarhring. 

„Við vorum í rauninni búin að prufukeyra þetta kerfi í mars og vorum tiltölulega fljót að koma okkur í það aftur. Það tók nokkra klukkutíma í rauninni og búið að ganga ótrúlega vel, “ segir Berglind Axelsdóttir, skólastjóri. 

Átta af 39 starfsmönnum skólans eru í sóttkví. Berglind segir engar nemendur vera í sóttkví eða einangrun að svo stöddu. 

Þrír starfsmenn heilsugæslunnar eru í sóttkví en ekki hefur þurft að kalla til liðsauka úr bakvarðasveit. 

Gunnar Þór Geirsson er læknir á heilsugæslunni. 

„Já, við höfum þurft að vinna aðeins meira. Meira af samtali og svo hafa hjúkrunarfræðingarnir staðið sig afburða vel við að taka sýni. Það hafa verið nokkrir tugir á hverjum degi. “

Tilbúin til að herða á ef þarf

Jakob segir að Stykkishólmsbær sé tilbúinn til þess að grípa til hertra aðgerða ef þörf krefur.

„Við erum  með okkar viðbragðsáætlanir klárar þannig við erum til búin ef til þess kemur, en auðvitað vonumst við til þess að sú staða komi ekki upp hér eins og hefur gerst í öðrum samfélögum. “