Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir að umsamdar hækkanir verði aldrei snertar

24.09.2020 - 07:04
Mynd með færslu
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar. Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Launahækkanir núgildandi kjarasamninga verða aldrei snertar segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. Hún segir að atvinnurekendur hafi lagt mikla áherslu á að gera kjarasamninga til langs tíma í samningaviðræðum í fyrravor. Þeir hafi alfarið hafnað tillögum um styttri samningstíma og að þeim hafi orðið að ósk sinni um langtímasamning.

Þetta segir Sólveig Anna í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Þar leggur hún út af endurskoðun á forsendum Lífskjarasamningsins og orðum atvinnurekenda um að engar forsendur séu fyrir launahækkunum. Samkvæmt Lífskjarasamningnum eiga laun að hækka um 15.750 krónur um næstu áramót og laun þeirra sem fá greitt eftir taxta eiga að hækka um 24 þúsund krónur.

Sólveig Anna segir í grein sinni að ný launatölfræði staðfesti að krónutöluhækkanir í samningum Eflingar síðan 2019 sýni að kjör hinna launalægstu hafi batnað hlutfallslega mest. Hún segir að í ljósi kórónuveirukreppunnar sé enn mikilvægara en áður að auka hlut láglaunafólks í heildartekjum. Sólveig Anna segir að allir sem til þekkja, jafnvel íhaldssamir hagfræðingar, eins og hún orðar það, séu sammála um að leiðin út úr kreppu sé í gegnum kaupmátt almennings sem viðhaldi innlendri eftirspurn. Hún segir að þar sem láglaunafólk sé líklegra en aðrir til að verja viðbótarkrónum í lífsnauðsynjar og þjónustu í nærumhverfinu sé skynsamlegt að veita láglaunafólki fleiri krónur til að spila úr.