Maður sem kveðst Kristur endurborinn handtekinn

24.09.2020 - 06:49
Mynd með færslu
Petropavlovka í Síberíu. Mynd: Konstrukt0r - Flickr.com
Rússneski sértrúarleiðtoginn Sergey Torop var handtekinn af rússneskum yfirvöldum á mánudag. Tveir aðstoðarmanna hans voru jafnframt handteknir. Torop kveðst vera sjálfur Jesús Kristur endurfæddur, og stýrði nokkur þúsund manna söfnuði í Síberíu.

Aðgerð yfirvalda til þess að handsama Torop var umfangsmikil. Þyrlur og vopnaðir laganna verðir réðust inn í þyrpingar safnaðarins þar sem hann var handtekinn, ásamt Vadim Redkin, sem talinn er hafa verið nánasti aðstoðarmaður hans, og Vladimir Vdernikov. Lögreglan, leyniþjónustan FSB og fleiri löggæslustofnanir tóku þátt í aðgerðinni. Torop er gefið að sök að hafa stjórnað ólöglegri trúarhreyfingu, hann hafi haft sóknarbörn að féþúfu og beitt þau andlegu ofbeldi.

Fyrrverandi umferðarlögregla

Torop var umferðarlögreglumaður þar til hann var leystur frá störfum árið 1989, þá 28 ára gamall. Hann kveðst hafa orðið fyrir köllun um það leyti sem Sovétríkin riðuðu til falls, og árið 1991 stofnaði hann hreyfinguna sem nú er þekkt sem Kirkja síðasta testamentisins. Nokkur þúsund sóknarbörn kirkjunnar búa í nokkrum þyrpingum í Krasnoyarsk-héraði í Síberíu. 

Í viðtali við Guardian árið 2002 sagðist Torop ekki vera guð, og það væru mistök að líta á Jesú sem guð. Hann lifði samkvæmt orðum guðs, og guð tjáði sig í gegnum hann. Söfnuðurinn var sambland af hefðum rétttrúnaðarkirkjunnar og öðrum reglum sem Torop bætti við. Til að mynda var sóknarbörnum gert að neyta aðeins grænmetis og peningar voru bannaðir innan safnaðarins. Ártal safnaðarins hófst árið 1961, fæðingarár Torops, og í stað jóla voru veisluhöld 14. janúar, afmælisdag Torops.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi