„Í annað skiptið á ævinni sem ég sofna yfir kvikmynd“

Mynd: RÚV / RÚV

„Í annað skiptið á ævinni sem ég sofna yfir kvikmynd“

24.09.2020 - 15:52

Höfundar

Ragnar Bragason kvikmyndagerðarmaður er aðdáandi Charlies Kaufman og beið því með mikilli eftirvæntingu eftir mynd hans I'm Thinking of Ending Things. Hann bjóst því alls ekki við því að sofna yfir myndinni, eins og raunin varð.

Kvikmynd Charlies Kaufman var frumsýnd á Netflix fyrr í mánuðinum og var Ragnar Bragason á meðal margra sem biðu með öndina í hálsinum eftir því að geta sett myndina í gang.

Kaufman vakti fyrst athygli sem handritshöfundur árið 1999 þegar kvikmyndin Being John Malkovich í leikstjórn Spike Jonze kom út. Síðan þá hefur hann komið að gerð sjö kvikmynda ýmist sem handritshöfundur eða leikstjóri. I'm Thinking of Ending Things byggir hann á samnefndri skáldsögu Iain Reid. Myndin er fjarri því að vera einföld aðlögun á bókinni eins og Charlie Kaufman er von og vísa og eru skiptar skoðanir um hana.

Ragnar Bragason segist hafa talið niður dagana áður en myndin varð aðgengileg á Netflix og horfði á hana hálftíma eftir að hún birtist þar. „Svo gerist eitthvað undarlegt,“ segir Ragnar. „Ég tapaði alveg þræðinum og ég sofnaði yfir myndinni, sem er í annað skiptið á ævinni sem ég sofna yfir kvikmynd. Ég veit ekki hvort það sé bölvun eða hvað en ef ég byrja að horfa á kvikmynd þá klára ég hana, hvort sem hún er góð eða léleg – en í þessu tilviki sofnaði ég. Þegar ég vaknaði, dálítið undrandi yfir því að hafa sofnað, þá kláraði ég hana nú.“

Ragnar segir að I'm Thinking of Ending Things sé ekki besta mynd Charlies Kaufman. Hún sé vissulega áhugaverð tilraun en hún sé óþarflega flókin og honum sjálfum hafi reynst erfitt að tengjast henni á tilfinningalegum grundvelli. 

Rætt var um myndina í Lestarklefanum, umræðuþætti um menningu og listir. Ásamt Ragnari Bragasyni voru gestir þáttarins Svanborg Sigurðardóttir og Halla Þórðardóttir. Þáttinn í heild má sjá hér.

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Líður eins og svarta sauðnum í fjölskyldunni