Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Fyrst Íslendinga með gilt þrefalt flippstökk

Mynd með færslu
 Mynd: Judith Dombrowski - Absolute skating

Fyrst Íslendinga með gilt þrefalt flippstökk

24.09.2020 - 20:23
Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir náði um síðustu helgi því afreki fyrst Íslendinga að ná þreföldu flippstökki í móti á listhlaupum á skautum og fá það dæmt gilt. Þessu náði Ísold á Deitannen bikarmótinu í Sviss.

Auk þess að gera þetta þrefalda flippstökk var það í samsetningu með tvöföldum tásnúningi (e. toeloop) og fékk hún 7,13 stig fyrir. Alls gerði Ísold sjö þreföld stökk í æfingum sínum á mótinu að því er fram kemur í tilkynningu frá Skautasambandi Íslands. Ísold vann til silfurverðlauna á mótinu í unglingaflokki kvenna (junior ladies).

Ísold Fönn sem er 14 ára fluttist til Champéry í Sviss fyrr á þessu ári. Hún æfir undir leiðsögn Stéphane Lambiel sem er fyrrverandi heimsmeistari og silfurverðlaunahafi frá Ólympíuleikum.