Fjöldahandtökur í Hvíta-Rússlandi

24.09.2020 - 17:54
epa08692216 Belarusian policemen detain a participant, as people react during a rally to protest against the inauguration of Alexander Lukashenko and against presidential election results in Minsk, Belarus, 23 September 2020. Lukashenko was inaugurated as President of Belarus, state media reported earlier in the day. The move comes after weeks of protests following an election that the opposition says was allegedly rigged.  EPA-EFE/STR
 Mynd: EPA-EFE - EOA
Lögreglusveitir Lúkasjenkós, forseta Hvíta-Rússlands, hafa handtekið hundruð stjórnarandstæðinga frá því að hann sór embættiseið með leynd í gær. Evrópusambandið viðurkennir hann ekki sem réttmætan forseta landsins.

Þúsundir stjórnarandstæðinga söfnuðust saman í miðborg Minsk og víðar í Hvíta-Rússlandi í gær þegar spurðist að Alexander Lúkasjenkó hefði svarið embættiseið með leynd að fáum viðstöddum. Leiðtogar þeirra hvöttu til borgaralegrar óhlýðni. Fjölmennt lið grímuklæddra her- og óeirðalögreglumanna var sent á vettvang, reyndi að sundra hópnum með vatnsþrýstibyssum og handtók 364 stjórnarandstæðinga. Fjöldi þeirra er enn í haldi, að sögn fréttamanna í Minsk. 

Evrópusambandið tilkynnti í dag að það viðurkenndi ekki Lúkasjenkó sem rétt kjörinn forseta Hvíta-Rússlands. Forsetakosningarnar í síðasta mánuði hefðu hvorki verið frjálsar né lýðræðislegar og úrslitin fölsuð.

Utanríkisráðherrum ESB-ríkjanna mistókst á mánudag að sammælast um að beita Hvít-Rússa refsiaðgerðum vegna kosningasvikanna. Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands, tilkynnti í dag að í Lundúnum væri verið að undirbúa aðgerðir. Ætlunin væri að hafa samflot með stjórnvöldum í Bandaríkjunum og Kanada.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi