Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekki hætta á ofsóknum en málsmeðferð tók of langan tíma

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ákvörðun kærunefndar útlendingamála að veita Khedr-fjölskyldunni frá Egyptalandi dvalarleyfi hér á landi byggist á því að of langur tími leið frá því að sótt var um alþjóðlega vernd og þar til endanleg niðurstaða fékkst í málið. Endurupptaka málsins var samþykkt þar sem lögð voru fram ný gögn sem fallist var á að væru tilefni til nýrrar rannsóknar á aðstæðum fjölskyldunnar.

Þrátt fyrir að sú rannsókn hafi leitt í ljós að ekki væri ástæða til þess að óttast ofsóknir í heimalandinu, fékkst niðurstaðan utan þess tímaramma sem gefinn er samkvæmt útlendingalögum. Fréttastofa hefur úrskurð kærunefndarinnar frá því í dag undir höndum.

18. nóvember í fyrra staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 25. júlí 2019 að synja fjölskyldunni um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi. Beiðni um endurupptöku málsins og frestun réttaráhrifa var í tvígang hafnað í byrjun þessa árs, en þriðja endurupptökubeiðnin barst svo 17. september síðastliðinn; daginn eftir að vísa átti fjölskyldunni úr landi.

Með þriðju endurupptökubeiðninni bárust jafnframt fylgigögn og viðbótarathugasemdir frá fjölskyldunni. Þar er byggt á að aðstæður fjölskyldumeðlima hafi ekki verið skoðaðar sérstaklega í málinu og því sé um að ræða brot á lögum um málefni útlendinga. 

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Dómsmálaráðherra fékk áskorun um að bregðast við.

Bentu á að rannsaka ætti hættu af kynfæralimlestingum

Rökin fyrir endurupptöku málsins eru byggð á því að kynfæralimlestingar séu mjög algengar í Egyptalandi og að tólf ára dóttir Ibrahim Khedr og Doaa Eldeib væri á sérstaklega viðkvæmum aldri hvað það varðar. Og vegna þess hve algengar kynfæralimlestingar á konum og stúlkum séu í Egyptalandi hafi stjórnvöldum borið að rannsaka betur aðstæður stúlkunnar. Um séu að ræða alvarlegan annmarka á málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli fjölskyldunnar og ákvörðun um synjun byggð á ófullnægjandi upplýsingum.

Fram kemur í úrskurði kærunefndarinnar að aldrei hafi verið minnst á mögulegar kynfæralimlestingar þegar fjölskyldan óskaði eftir vernd hér á landi. Ekkert í málatilbúnaði eða framburði þeirra hafi gefið tilefni til þess að stjórnvöld rannsökuðu að eigin frumkvæði hættuna á kynfæralimlestingum. 

Ný málsástæða sem rannsaka þurfti nánar

Í úrskurði kærunefndar varðandi endurupptöku segir að fjölskyldan sé nú að bera fram nýja málsástæðu, sem ekki hafi verið tekin afstaða til áður hjá Útlendingastofnun. Við fyrstu skoðun gæti hún lagt grunn að því að stúlkan ætti á hættu að verða fyrir ofsóknum verði hún send aftur til Egyptalands. Þess vegna sé ekki annað unnt en að endurupptaka málið á grundvelli hinnar nýju málsástæðu.

Þessi rannsókn leiddi það hins vegar í ljós, segir í úrskurði kærunefndarinnar, að stúlkan teljist ekki hafa ástæðu til að óttast ofsóknir eða eigi á hættu að verða fyrir ómannúðregri eða vanvirðandi meðferð, snúi hún aftur til Egyptalands. Það sé því ekki þörf á vernd á grundvelli mannúðarástæðna.

Dvalarleyfið er því ekki veitt á þeim grundvelli að hætta sé á að stúlkan verði fyrir kynfæralimlestingum, og er því ekki fordæmisgefandi fyrir aðrar umsóknir um alþjóðlega vernd sem kunni að berast á þeim rökum.

Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Brottvísun fjölskyldunnar var harðlega mótmælt.

Ný niðurstaða sem fellur utan tímarammans

Í lögum um málefni útlendinga segir að heimilt sé að veita einstaklingi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, ef meira en 18 mánuðir eru liðnir síðan umsókn barst um alþjóðlega vernd og engin niðurstaða komin í málið á þeim tíma. Í tilfelli barna er þessi tími 16 mánuðir.

Fjölskyldan sótti um alþjóðlega vernd 7. ágúst 2018. Kærunefnd útlendingamála staðfesti synjun Útlendingastofnunar 18. nóvember 2019, sem eru innan ramma þeirra laga. 

En þar sem kærunefndin féllst á að rannsaka ætti aðstæður fjölskyldumeðlima betur við þriðju endurupptökubeiðni, telst það sem ný niðurstaða á stjórnsýslustigi og þess vegna eigi tímarammi laganna að miðast við úrskurðinn sem kveðinn var upp í dag. Stúlkan hafi því ekki fengið endanlega niðurstöðu í sitt mál innan 16 mánaða frá því hún sótti um alþjóðlega vernd.

Tafir foreldranna hafi ekki þýðingu í málinu

Í úrskurði kærunefndarinnar segir að ekki verði séð að að stúlkan hafi sjálf átt þátt í því að niðurstaðan hafi ekki fengist innan tímamarka. „Kærunefndin telur ekki forsendur til að telja að þær tafir sem foreldrar hennar kunni að hafa valdið á málinu hafi þýðingu í þessu samhengi,“ segir í úrskurðinum. 

Þess vegna er niðurstaða kærunefndar sú að veita eigi stúlkunni dvalarleyfi þar sem niðurstaða í hennar mál fékkst ekki innan 16 mánaða. Og þar sem meginregla gildir um einingu fjölskyldu verði foreldrum og systkinum stúlkunnar því einnig veitt dvalarleyfi á sama grundvelli.