Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Drápu Suður-Kóreumann og brenndu líkið

24.09.2020 - 05:22
epa08692537 Ahn Young-ho, a Joint Chiefs of Staff officer, holds a press conference at the defense ministry in Seoul, South Korea, 24 September 2020. South Korea’s defense ministry confirmed on 24 September that a missing South Korean official was shot to death by North Korea earlier this week and his body later burnt. The ministry condemned the North's "brutality" and called for explanations and punishment for those responsible. The 47-year-old official affiliated with the Ministry of Oceans and Fisheries disappeared before noon on 21 September 2020 while on duty aboard an inspection boat in waters off the western border island of Yeonpyeong.  EPA-EFE/YONHAP SOUTH KOREA OUT
Ahn Young-ho, herforingi í herforingjaráði Suður-Kóreu, á blaðamannafundi í morgun. Mynd: EPA-EFE - YNA
Suðurkóreskur embættismaður á fimmtugsaldri var skotinn til bana af norðurkóreskum hermönnum og lík hans brennt. Varnarmálaráðuneyti Suður-Kóreu staðfesti þetta í morgun, og fordæmir aðgerðir nágrannaríkisins.

Að sögn Yonhap-fréttastofunnar eru stjórnvöld í Norður-Kóreu krafin skýringar á málinu og að þeir sem drápu manninn verði látnir sæta ábyrgð. Í yfirlýsingu varnarmálaráðuneytisins segir að maðurinn hafi unnið í sjávarútvegsráðuneyti Suður-Kóreu. Hann var um borð í rannsóknarskipi sem sigldi við eyjuna Yeonpyeong vestan við Kóreuskaga, við landamæri ríkjanna, á þriðjudag. Þar lét hann sig hverfa og telur herforingjaráðið að hann hafi ætlað að flýja yfir til Norður-Kóreu.

Talið tengjast kórónuveiruaðgerðum

Skipverjar um borð í skipi norðurkóresku strandgæslunnar urðu varir við manninn, sem svamlaði um í björgunarvesti og studdi sig við einhvern óþekktan hlut. Að sögn suðurkóreska herforingjaráðsins skutu norðurkóreskir hermenn manninn til bana, helltu yfir hann olíu og kveiktu í. 

Yonhap hefur eftir embættismanni úr herforingjaráðinu að maðurinn hafi verið drepinn samkvæmt ómannúðlegum aðgerðum Norður-Kóreu gegn kórónuveirufaraldrinum. 

Ekki svarað skilaboðum

Suður-Kórea sendi skilaboð til nágranna sinna í norðri í gegnum samskiptalínu Sameinuðu þjóðanna til Norður-Kóreu. Ekkert svar hefur enn borist. 

Áhöfn suðurkóreska skipsins gerði strangæslunni viðvart um hvarf hans á þriðjudag. Engin ummerki um hann fundust um borð utan skóparið hans. Um 20 skip voru send til leitar auk flugvélar, en hans varð hvergi vart. Að sögn Yonhap greindu suðurkóreskar eftirlitsmyndavélar á Yeonpyeong eld á hafi úti á þriðjudagskvöld. 

Fyrsta sinn síðan 2008

Þetta er í fyrsta sinn í rúm tólf ár sem suðurkóreskur maður er skotinn til bana í Norður-Kóreu. Í júlí 2008 var maður drepinn á vinsælum ferðamannaslóðum í Kumgang. Norðurkóreskir hermenn drápu hann þegar hann rambaði óvart inn á bannsvæði.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV