Bestu vinir Messi seldir frá Barcelona

epa07902252 FC Barcelona's Arturo Vidal, Luis Suarez and Leo Messi celebrate a goal during a Spanish LaLiga soccer match between FC Barcelona and Sevilla FC at the Camp Nou stadium in Barcelona, Spain, 06 October 2019.  EPA-EFE/TONI ALBIR
 Mynd: EPA

Bestu vinir Messi seldir frá Barcelona

24.09.2020 - 07:45
Úrúgvæski framherjinn Luis Suárez gekk í gærkvöld í raðir spænska fótboltaliðsins Atlétco Madríd frá Barcelona. Suárez var einn þeirra leikmanna sem Ronald Koeman nýr knattspyrnustjóri Börsunga tilkynnti strax á fyrstu dögum sínum í starfi, að mættu róa á önnur mið.

Suárez sem er 33 ára hafði verið hjá Barcelona í sex ár, og fór þangað frá Liverpool árið 2014. Þá sagði Suárez að það hefði verið draumur hans síðan í barnæsku að spila með Börsungum. Þar hitti hann svo fyrir Argentínumanninn Lionel Messi, en þeir náðu vel saman bæði innan sem utan vallar.

Bestu vinir Lionels Messi í liði Barcelona, þeir Suárez og Sílebúinn Arturo Vidal hafa nú báðir yfirgefið félagið og það að frumkvæði Ronalds Koeman. Vidal samdi á þriðjudag við ítalska liðið Inter Mílanó. Suður-Ameríkumennirnir þrír höfðu átt talsvert náið vinasamband í Barcelona.

Messi óskaði í lok sumars eftir því að fá samningi sínum við Barcelona rift og fá að yfirgefa félagið. Því höfnuðu Börsungar hins vegar og á endanum gafst Messi upp og sagðist myndi klára samning sinn við félagið. Samningurinn rennur út næsta sumar.

Messi og Suárez voru báðir fremur tilfinningaríkir á samfélagsmiðlum þegar Vidal samdi við Inter Mílanó á þriðjudag. Báðir settu þeir inn færslur á Instagram og Twitter þar sem þeir þökkuðu honum fyrir tímann saman hjá Barcelona sem og fyrir vináttuna. Nú hefur Suður-Ameríska tríóið hjá Barcelona hins vegar verið leyst upp og Messi þarf að notast við nýjar bakraddir í vetur.