Allt sem er, verðskuldar umfjöllun

Mynd: RÚV / RÚV

Allt sem er, verðskuldar umfjöllun

24.09.2020 - 08:59

Höfundar

Hugtakið Smáspeki er sambræðingur heimspeki og hönnunar, hugarfóstur Sigríðar Þorgeirsdóttur og Katrínar Ólínu Pétursdóttur. 

Katrín Ólína er hönnuður og Sigríður heimspekingur. Þær settu upp sýningu, viðburðaröð, vef og smáforrit til að útskýra hugtakið og kenna fólki að nýta sér það í daglegu lífi. Að þeirra sögn er smáspekinni, eða „minisophy“, best lýst sem heimspeki litlu hlutanna. „Við göngum út frá því að allir hlutir og fyrirbæri séu jafnmerkileg og jafnrétthá. Við Sigríður höfðum talað saman í nokkur ár og langaði til að finna leið til að búa til eitthvað nýtt með því að blanda saman heimspeki og hönnun,“ segir Katrín Ólína. 

Sýningin Smáspeki var haldin í Ásmundarsal á dögunum. Ýmsir viðburðir á smáspekinótum voru haldnir í tengslum við sýninguna, þar á meðal plöntugreiningarpróf og dansandi minisófía. Þá var listamaðurinn Árni Vilhjálmsson með innsetningu um öndun og Freyja Þórsdóttir með listaverk um og úr spírum. Í kjölfarið opnaði vefur um smáspekina og smáforrit innblásið af henni sett í loftið, notendum að kostnaðarlausu.

Litla speki

Að mati Sigríðar eykur verkefnið ekki síst aðgengi að þeirri fræðigrein sem hún fæst við. „Heimspeki getur fjallað um allt, hún er kannski ekki jafn upphafin og hún hefur verið talin. Við erum að tala um að taka eftir því sem er í kringum okkur, taka eftir því sem við gerum þegar við erum með hluti eða hvað við erum að hugsa, að fílósófera um það sem er næst okkur. Þess vegna köllum við þetta smáspeki, eða „minisophy“ á ensku – litla speki.“

Allt sem er

Sigríður segir brýna þörf á þeirri gjörhygli og íhugun inn á við sem smáspekin býður upp á. „Við höldum að það sé einhver aftenging í gangi í heiminum í dag á mörgum sviðum, við erum aftengd okkur sjálfum, við erum aftengd jörðinni.“

Að sögn Katrínar er róf litlu hlutanna vítt og breitt. „Þetta eru hlutirnir og fyrirbærin sem standa okkur mjög nærri, og fyrirbærin. Við erum að fjalla um allt frá köttum til steina, allir þessir húsmunir, þetta er í rauninni allt sem er, það finnst okkur vera þess virði að fjalla um.“

Vefur Smáspekinnar
Snjallforritið Minisophy

Tengdar fréttir

Pistlar

Smáspekileg tengsl heimspeki og hönnunar

Menningarefni

Allir geta hugsað heimspekilega