Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Verðstríð á eldsneyti á Akureyri

23.09.2020 - 14:34
Mynd með færslu
 Mynd: Grafík - RÚV
Svo virðist sem verðstríð um eldsneyti sé skollið á Akureyri. Þrjár eldsneytisstöðvar hafa nú lækkað verðið verulega og til samræmis við það sem viðgengst á eldsneytisstöðvum sem eru í nálægð við Costco í Garðabæ. Lækkun á verði kemur í kjölfar tilkynningar Atlantsolíu á mánudag.

„Komið að því að bjóða Akureyringum þennan valkost“

Í tilkynningunni frá félaginu sem send var fjölmiðlum á mánudag kom fram að breyting hefði verið gerð á stöð fyrirtækisins við Baldursnes. Breytingin fól í sér að stöðin lækki verð til samræmis við verðstefnu sína í Kaplakrika og á Sprengisandi. „Nú er komið að því að bjóða Akureyringum og nærsveitarmönnum þennan valkost,“ segir í tilkynningu.

Valkostur eftir að Costco opnaði

Rakel Björg Guðmundsdóttir, markaðsstjóri Atlantsolíu, segir í samtali við fréttastofu að með því að afnema afslætti og önnur vildarkjör geti stöðin boðið þetta verð. „Með þessu erum við að bregðast við ákalli viðskiptavina á Akureyri og þar í kring og erum mjög ángægð með þetta,“ segir segir Rakel. 

En hver vegna var þetta ekki gert fyrr á landsbyggðinni?

„Við byrjuðum með þennan valkost í Kapplakrika í maí 2018. Það er engin launung að það var svar við samkeppni við Costco. Það gekk mjög vel og því ákváðum við að opna sambærilega stöð á Sprengisandi í fyrra. Akureyri var svo næsta skref,“ segir Rakel og bætir því við að ekki hafi verið teknar neinar ákvarðanir um frekari breytingar á stöðum félagsins á landsbyggðinni. 

Rúmlega 30 króna lækkun

Í kjölfar tilkynningar Atlantsolíu brást Orkan við með lækkun á stöð sinni við Mýrarveg. Það sama gerði ÓB við Hlíðarbraut. Eins og staðan er í dag er verðið á bensíni lægst á stöð Orkunnar við Mýrarveg eða 185,4 krónur. Til samanburðar er verð á bensíni hjá Atlantsolíu við Glerártorg og á stöð ÓB við Sjafnargötu rúmlega 30 krónum hærra eða 215,7 krónur. 

Margar bensínstöðvar á Akureyri

Á Akureyri er nú starfræktar þrettán bensínstöðvar eða ein stöð á hverja 1.500 íbúa. Í Reykjavík er ein bensínstöð á hverja tæplega 3.000 íbúa og í Lundúnum er ein stöð fyrir hverja 10.000 íbúa.