Tindastóll í efstu deild í fyrsta skipti

Mynd með færslu
 Mynd: Feykir.is

Tindastóll í efstu deild í fyrsta skipti

23.09.2020 - 18:16
Kvennalið Tindastóls í knattspyrnu tryggði sig í kvöld upp í úrvalsdeild kvenna í fyrsta sinn í sögu félagsins. Liðið vann Völsung á útivelli í kvöld og er komið upp um deild þrátt fyrir að þrjár umferðir séu eftir af deildinni.

Tindastóll hefur unnið þrettán af fimmtán leikjum sínum í 1.deildinni í sumar og trónir á toppi deildarinnar með 40 stig. Þar sem Keflavík og Haukar, sem eru í 2 og 3. sæti, eiga eftir að mætast tvívegis í sumar var ljóst að sigur í kvöld kæmi til með að tryggja sæti Tindastóls í Pepsi Max-deildinni.

Það var aldrei spurning um það hvort liðið væri rétt stillt fyrir leik dagsins þrátt fyrir að mikið væri undir. Tindastóll komst yfir á 32. mínútu leiksins og þannig var staðan í hálfleik. Í seinni hálfleik skipti Tindastólsliðið um gír og skoraði þrjú mörk og lokatölur leiksins 4-0. 

Mikil uppbygging hefur verið í kvennafótboltanum á Sauðárkróki undanfarin ár. Árið 2018 endaði Tindastóll í 2. sæti í 2. deildinni og í fyrra var liðið í baráttunni um að komast upp í Pepsi Max-deildina alveg fram í lokaumferðina. Lykilleikmaður liðsins leikur í fremstu víglínu en þar hefur Murielle Tiernan farið á kostum og skorað 21 mark fyrir leik kvöldsins.

Sigrinum var fagnað vel og innilega í leikslok en margir Sauðkrækingar lögðu leið sína til Húsavíkur til að verða vitni af þessum frábæra árangri kvennaliðsins. 

Mynd með færslu
 Mynd: Feykir.is
Murielle Tiernan hefur farið á kostum.