Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Systkinum dæmdar miskabætur vegna mistaka Landspítala

23.09.2020 - 15:27
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Íslenska ríkið var í dag dæmt til að greiða tveimur systkinum samtals rúmlega tvær milljónir króna, auk vaxta, í miskabætur vegna mistaka á Landspítalanum sem urðu til þess að faðir þeirra lést árið 2014. Íslenska ríkinu var þar að auki gert að greiða dánarbúi föðurins 1,4 millljónir króna og allan sakarkostnað. Í niðurstöðu dómsins kemur fram að mistök starfsmanna Landspítalans og brot gegn réttindum mannsins sem sjúklings hafi falið í sér stórfellt gáleysi við meðferð hans. 

Í dóminum kemur fram að maðurinn gekkst undir skurðaðgerð vegna krabbameins í ristli 14. júlí 2014. Eftir aðgerðina var hann fluttur á lungnadeild sem vegna sumarleyfa hafi einnig þjónað legu meltingarfærasjúklinga. Þar hafi honum versnað en enginn læknir skoðað hann þrátt fyrir óskir aðstandanda.

Sex dögum eftir aðgerðina fór hann í hjartastopp og fannst mikið blóð í kviði og rof á samtengingu ristils í aðgerð sem gerð var í framhaldi af endurlífgun hans úr hjartastoppi. Dómurinn segir að ganga verði út frá því að þessi leki og sýking hafi valdið hjartastoppi og svo andláti hans 25. júlí. 

Enginn læknir sinnti eftirfylgni eftir aðgerð

Dómurinn dregur þá ályktun af gögnum málsins að læknirinn sem framkvæmdi aðgerðina 14. júlí hafi ekki sinnt eftirfylgni með sjúklingnum. Fyrst hann var fjarverandi hefði átt að fela öðrum lækni meginábyrgð á meðferð mannsins og upplýsa sjúklinginn um það í samræmi við lög um réttindi sjúklinga. Dómurinn segir að ekki verði dregin önnur ályktun en að brotið hafi verið á rétti mannsins hvað þetta varðar.

Dómurinn segir jafnframt í niðurstöðum sínum að ekki verði annað ráðið af gögnum málsins en að læknanemi hafi sinnt eftirfylgni sjúklingsins í fjarveru meðferðarlæknisins og án stuðnings reyndra lækna.

Fyrst enginn læknir hafi verið með yfirumsjón hefðu vakthafandi hjúkrunarfræðingar átt að hafa samband við viðeigandi lækni eða lækna. Þrátt fyrir það hafi enginn læknir skoðað manninn fyrr en hann fór í hjartastopp 20. júlí 2014. Annað hvort hafi misfarist hjá hjúkrunarfræðingum að kalla eftir lækni eða læknir ekki svarað kalli þeirra. Þetta samræmist niðurstöðu rótargreiningar Landspítalans um að mikilvægar upplýsingar hafi ekki borist milli starfsmanna, misskilningur hafi átt sér stað, misbrestur hafi verið á notkun og uppflettingu sjúkraskrárgagna og enginn hafi virst hafa haft góða yfirsýn og heildarmynd af framvindu sjúklingsins. 

Þá hafi lífsmörk sjúklingsins ekki verið mæld með nægilega markvissum hætti eða mat lagt á ástand hans í samræmi við verkferla.  Telur dómurinn að þessi mistök hafi verið samverkandi orsök þess að ekki var brugðist við versnandi ástandi mannsins eða kallaður til læknir þegar tilefni var til þess. 

Dómurinn fellst á kröfu systkinanna um greiðslu á útfararkostnaði. Við mat á miska systkinanna lítur dómurinn til þess að alvarleg mistök hafi verið gerð við læknismeðferð föður þeirra og að þau séu ósamrýmanleg réttindum hans sem sjúklings. Hins vegar verði að líta til þess að Landspítalinn hafi beðið systkinin, sem voru uppkomin börn hins látna, afsökunar fyrir hönd spítalans og að afsökunarbeiðninni hafi verið fylgt eftir með rannsókn og aðgerðum innan sjúkrahússins.

Systkinin fengu hvort um sig dæmdar eina milljón króna í miskabætur auk vaxta. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV