Skýrist á næstu dögum hvort fólk verði alvarlega veikt

23.09.2020 - 12:57
Mynd: Lögreglan á höfuðborgarsvæ� / RÚV
Það skýrist á næstu dögum hvort þeir sem smitast hafa í nýjustu bylgju kórónuveirufaraldursins verði mjög veikir. Þetta segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. Hann hefur verið í sóttkví undanfarna daga og fer í sýnatöku í dag.

57 ný innanlandssmit greindust í gær úr metfjölda sýna sem greind voru. Tveir eru á sjúkrahúsi með COVID-19 sem stendur. „Þetta er nálægt því sem við áttum von á þegar tekinn er svona gríðarlegur fjöldi sýna. Heildarfjöldi sýna í gær er náttúrlega 5.165 sem er nánas 700 meira en við höfun nokkru sinni tekið áður,“ segir Víðir í samtali við fréttastofu.

„Þannig að þetta kom okkur ekki á óvart og það er í sjálfu sér jákvætt að við höfum náð til þetta margra og komið þeim í einangrun,“ segir Víðir.

Sé litið til tímalínu veikinda þeirra sem nú eru í einangrun skýrist þaðá næstu dögum hvort sá mikli fjöldi sem greinst hefur að undanförnu verði alvarlega veikur, að sögn Víðis. „Við förum að sjá það núna um helgina hvort við fáum aukið álag á heilbrigðiskerfið.“

Tíu árum yngra fólk

Meðalaldur þeirra sem hafa greinst með veiruna í þeirri bylgju faraldursins sem nú er verið að kveða niður, er um það bil tíu árum lægri en í vor. Flest smit eru meðal fólks á aldrinum 18-29 ára og næst flest smit eru meðal fólks á fertugsaldri.

Víðir segir að þetta sé svipuð þróun og annars staðar í Evrópu. Margt bendi til þess að yngri aldur smitaðra skýri hvers vegna álagið á heilbrigðiskerfið er ekki eins mikið núna og í fyrstu bylgunni. „Yngra fólkið er að fá meira högg núna heldur en í fyrri bylgjunni og það eru örugglega ýmsar skýringar á því.“ Hann segir að enn sé verið að rekja þau smit sem greinst hafa undanfarna daga og ekki hægt að slá því föstu hvaðan þau koma. Aðspurður sagðist hann ekki geta sagt hvort þetta væru smit af öldurhúsum eins og greint var frá í síðustu viku.

Aldrei fleiri sýni tekin

Metfjöldi sýna var tekin hér á landi í gær, yfir fimm þúsund. Ljóst er að ekki verða tekin jafn mörg sýni í dag, enda ráða heilbrigðisyfirvöld ekki oft við slíkan fjölda.

Víðir sem sjálfur er í sóttkví biður fólk að fara ekki í sýnatöku nema það sé með einkenni. Sé það einkennalaust og í sóttkví sé óþarfi að fara í sýnatöku. „Fólk verður bara að vera aðeins þolinmótt,“ segir hann.

Síðar í dag fer Víðir sjálfur í sýnatöku á sjöunda degi sóttkvíar. Hann finnur ekki fyrir neinum einkennum og segist vongóður um að geta stýrt upplýsingafundi almannavarna á morgun fimmtudag.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi