Mistök á LSH: Erfitt að vita að ekki var hlustað á hann

23.09.2020 - 21:55
Mynd: Aðsend / Aðsend
Íslenska ríkið var í dag dæmt skaðabótaskylt vegna mistaka á Landspítalanum sem leiddi til andláts 55 ára karlmanns. Dóttir mannsins segir erfitt að ekki hafi verið hlustað á hann síðustu dagana áður en hann lést.

Jón Valgeir Gíslason lést á Landspítalanum 25. júlí 2014. Hann gekkst undir skurðaðgerð vegna krabbameins í ristli 14. júlí, en eftir aðgerðina lá hann á lungnadeild, sem vegna sumarleyfa þjónaði einnig öðrum sjúklingum. Þar fór líðan hans versnandi. 

„Það var aldrei kallaður til læknir til þess að skoða það af hverju honum fór alltaf hrakandi dag frá degi. Okkar upplifun var alveg skýr með það að honum var alltaf að hraka og honum leið undir lokin alveg gríðarlega illa . En það var ekki brugðist við því,“ segir Berglind Eygló Jónsdóttir, dóttir Jóns Valgeirs.

Sex dögum eftir aðgerðina fór Jón Valgeir í hjartastopp. Í dómi héraðsdóms segir að læknirinn sem framkvæmdi aðgerðina hafi ekki fylgt henni eftir og viðeigandi læknar ekki kallaðir til. Því hafi enginn skoðað Jón Valgeir fyrr en hann fór í hjartastopp. Hann lést fimm dögum síðar, 55 ára gamall.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - Skype
Berglind Eygló Jónsdóttir, dóttir Jóns Valgeirs.

Stórfellt gáleysi og brot á réttindum sjúklings

„Það er mjög erfið tilfinning að vita að síðustu dagarnir hans hafi verið svona sársaukafullir og erfiðir og það hafi ekki verið hlustað á hann,“ segir Berglind.

Í dómnum er talað um stórfellt gáleysi við meðferð Jóns Valgeirs. Landspítalinn fylgdi málinu eftir með rannsókn, en Berglind segir að aldrei hafi verið talað um mistök af hálfu spítalans. Nú sé búið að viðurkenna að brotið hafi verið á réttindum hans sem sjúklings.

„Það fyrir okkur er alveg ofboðslega mikilvægt, að það sé bara viðurkennt. Fólk á ekki að lenda í svona umönnun eða skorti á umönnun inni á spítala þegar það er fárveikt.“

Nú sex árum eftir andlátið vill fjölskyldan loks geta horft fram á veginn.

„Ég vona að nú sé þetta bara búið og að við getum bara farið að eiga allar góðu minningarnar og setja þessi málaferli á bak við okkur,“ segir Berglind Eygló Jónsdóttir.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi