Mismunun „á grundvelli þjónustuforms“

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - Kveikur
Umboðsmaður Alþingis beinir því til úrskurðarnefndar velferðarmála að taka til nýrrar meðferðar mál manns með hreyfihömlun, óski hann þess. Árið 2018 staðfesti nefndin ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja hreyfihömluðum manni um styrk til kaupa á bifreið á þeim grundvelli að maðurinn uppfyllti ekki nauðsynleg skilyrði til að eiga rétt á slíkum styrk.

Umboðsmaður Alþingis telur ákvörðun úrskurðarnefndar ekki hafa verið í samræmi við lög og segir hana fela í sér „mismunun á milli fatlaðs fólks á grundvelli þjónustuforms sem það nýtur“. 

Nefndin vísaði til þess að þjónustuáætlun væri ekki samningur 

Í áliti umboðsmanns Alþingis segir að niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála hafi einkum verið byggð á því að til þess að eiga rétt á slíkum styrk þyrfti hreyfihamlaður einstaklingur, ef hann hefði ekki sjálfur ökuréttindi eða annar á hans heimili, að hafa persónulega aðstoðarmenn samkvæmt samningi við sveitarfélag.  

Í úrskurði nefndarinnar er vísað til þess að sú þjónustuáætlun sem umsækjandinn hafði gert við sveitarfélag sitt sé ekki „samningur“ í þeim skilningi sem reglugerðin kveður á um. Umboðsmaður Alþingis telur að með þeirri túlkun hafi nefndin „þrengt með of fortakslausum hætti“ að því mati sem orðalag reglugerðarinnar felur í sér. Í áliti hans segir að samkomulag liggi fyrir milli sveitarfélagsins og mannsins um persónulega aðstoðarmenn sem aðstoða hann allan sólarhringinn og að sú þjónusta sé útfærð sem þjónustuáætlun, þar sem til dæmis sé gert ráð fyrir að maðurinn hafi afnot af bíl.  

Ekki gerð krafa um tiltekið þjónustuform 

Umboðsmaður bendir á að af orðalagi reglugerðarákvæðanna, sem úrskurðarnefndin vísar til, sé ljóst að ekki sé gerð krafa um tiltekið þjónustufyrirkomulag, enda sé þar talað um að umsækjandi þurfi að vera í „sjálfstæðri búsetu og hafi persónulega aðstoðarmenn samkvæmt samningi við sveitarfélag, t.d. samning um notendastýrða persónulega aðstoð, beingreiðslusamning eða „sambærilegan samning““.

Í áliti umboðsmanns segir að nefndin hafi ekki tekið nægileg mið af stöðu mannsins og inntaki þeirrar þjónustuáætlunar sem gildi milli hans og sveitarfélagsins. Þá tekur hann fram að ljóst sé að maðurinn sem um ræði í þessu máli uppfylli önnur skilyrði sem reglugerðin kveður á um; hann búi í sjálfstæðri búsetu og uppfylli skilyrði laga um hreyfihömlun til að fá styrk til bifreiðakaupa. 

Þá segir einnig: „Það eitt að sveitarfélag veldi, að höfðu samráði við fatlaðan einstakling, tiltekið form samnings og ráðstöfun fjármuna í þessu skyni gæti ekki útilokað einstakling frá því að njóta umræddrar uppbótar/styrks ef hann uppfyllti að öðru leyti þau skilyrði sem sett væru.“ 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi