Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Miðflokkur bætir nokkuð við sig en Samfylkingin dalar

23.09.2020 - 17:34
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Miðflokkurinn bætir við sig fylgi samkvæmt nýrri könnun MMR á fylgi stjórnmálaflokkanna. Samfylkingin tapar hins vegar fylgi. Aðrar breytingar á fylgi flokkanna eru flestar innan skekkjumarka. Stuðningur við ríkisstjórnina mælist tæpu prósentustigi meiri en í síðustu könnun.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist sem fyrr stærsti flokkur landsins, en fylgi hans nú er 25,6%, sem er rúmlega einu og hálfu prósentustigi meira en í síðustu könnun MMR sem var gerð í ágúst, en þá var flokkurinn með 24%.

Píratar mælast með næstmest fylgi, eða 15%, sem er aukning um tæpt prósentustig frá því í síðustu könnun þegar flokkurinn mældist með 14,3%.

 

Samfylkingin er með 12,8% fylgi en var með 14,9% síðast. Miðflokkurinn er með 10,8 prósenta fylgi miðað við 8% í síðustu könnun, og hann bætir því þónokkru fylgi við sig á milli kannana.

Viðreisn er með 9,4% fylgi og Vinstri græn eru með 8,5%, samanborið við 9,6% í síðustu könnun. Framsóknarflokkurinn mælist með 8,3%, Sósíalistaflokkurinn með 4,3% og Flokkur fólksins með 3,6% en var með 4,8% í síðustu könnun. Aðrir flokkar eru með samanlagt 1,7% fylgi. 

Stuðningur við ríkisstjórnina mældist 51% og jókst um tæpt prósentustig frá síðustu könnun, þegar stuðningurinn var 50,1%.

Breytingar á fylgi Samfylkingarinnar, Miðflokksins og Flokks fólksins eru marktækar, aðrar breytingar á milli kannana eru innan skekkjumarka. 

Hér má lesa nánar um könnunina og framkvæmd hennar.