„Það hefur haft áhrif til að auka drykkju hjá mörgum sem koma til okkar. Margir eru orðnir langdrukknir, eru orðnir illa á sig komnir eftir að hafa drukkið áfengi kannski dag eftir dag í langan tíma. Þetta er jafnvel fólk sem drakk áður og hafði vissa stjórn á sér af því að það mætti í vinnuna og hélt hlutunum gangandi. Þegar það breytist fara margar hömlur í viðbót,“ sagði Valgerður á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.
Miðaldra fólk er áberandi í hópi þeirra sem leita sér aðstoðar á Vogi. Minna hefur farið fyrir yngra fólki. Valgerður telur að þar kunni að hafa góð áhrif að engar samkomur eða hátíðir eru haldnar í COVID-19 faraldrinum og ekki sé djamm um helgar. „Það er gríðarlegt aðhald í samfélaginu að þessu leyti fyrir fólk sem er vant að vera á þvælingi um helgar og sækja allar uppákomur.“