Lúkasjenkó sór embættiseið í morgun

23.09.2020 - 10:12
Belarusian President Alexander Lukashenko attends a meeting with Oleg Kozhemyako, governor of the far eastern region of Primorsky Krai of Russia in Minsk, Belarus, Tuesday, Sept. 22, 2020. (Maxim Guchek/BelTA Pool Photo via AP)
Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands. Mynd: ASSOCIATED PRESS - BelTA
Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, sór í morgun embættiseið sem forseti næsta kjörtímabil. Ríkisfréttastofan landsins greindi frá þessu og sagði að hundruð manna hefðu verið við athöfnina, en almenningi var ekki greint frá henni fyrir fram. 

Lúkasjenkó var lýstur sigurvegari forsetakosninganna sem fram fóru í Hvíta-Rússlandi í síðasta mánuði, en stjórnarandstæðingar viðurkenna ekki úrslitin og segja að brögðum hafi verið beitt til að tryggja endurkjör forsetans sem hefur verið við völd síðan 1994.

Mikil mótmæli hafa verið í Hvíta-Rússlandi frá kosningum og hafa þúsundir verið handteknar. Yfirvöld hafa verið sökuð um að beita mótmælendur mikilli hörku og jafnvel pyntingum.

Vesturveldin viðurkenna ekki heldur niðurstöður kosninga og hafa hótað refsiaðgerðum gegn þeim ráðamönnum í Hvíta-Rússlandi sem sekir hafi gerst um kosningasvik og beri ábyrgð á ofbeldi gegn mótmælendum.

 

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi