Kemur í ljós á næstu dögum hvort fólk verði mjög veikt

23.09.2020 - 16:10
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Á næstu dögum kemur í ljós hvort fólk, sem hefur verið að fá kórónuveiruna undanfarið, verður mjög veikt. Þetta segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. Núna eru tveir á sjúkrahúsi með kórónuveirusmit.

Í gær greindust 57 ný smit. Tekin voru meira en 5.000 sýni. Aldrei áður hafa verið tekin svo mörg sýni á einum degi.

Flestir sem hafa greinst með veiruna núna eru á aldrinum 18-29 ára og næstflest smit eru meðal fólks á aldrinum 30-39 ára. Það gæti verið ein skýringin á því hvað fáir hafa enn lagst inn á sjúkrahús. Ekki er búið að rekja öll smitin til að finna út hvaðan þau koma.

Víðir biður fólk að fara ekki í sýnatöku nema það sé með einkenni um kórónuveirusmit. Ef fólk er í sóttkví en ekki með einkenni er betra að það sýni þolinmæði þar til sóttkvíin er búin. Víðir hefur sjálfur verið í sóttkví undanfarna daga. Hann hefur engin einkenni en fer þó í sýnatöku í dag. Hann vonast til að geta stýrt upplýsingafundi almannavarna á morgun, fimmtudag.

 

annathr's picture
Anna Sigríður Þráinsdóttir
málfarsráðunautur
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi