Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Höfða fjögur skaðabótamál vegna Ischgl

23.09.2020 - 10:14
epa08689975 Peter Kolba, Chairman of the Verbraucherschutzverein VSV (Consumer Protection Association), attends a press conference in Vienna, Austria, 23 September 2020. The VSV announced to bring in four individual lawsuits against the Austrian federal state on its actions handling the outbreak of the coronavirus and COVID-19 disease pandemic, on behalf of people who say they have become infected with the coronavirus at the ski resort in Ischgl, Tyrol, earlier this year.  EPA-EFE/CHRISTIAN BRUNA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fjögur skaðabótamál hafa verið höfðuð gegn austurrískum stjórnvöldum vegna viðbragða þeirra við kórónuveirusmitum á skíðasvæðinu Ischgl í mars. Þetta eru fyrstu málin sem höfðuð eru gegn Austurríki og Týrólríki vegna farsóttarinnar. Stefnt er að því að höfða hópmálsóknir á næsta ári.

Alexander Klauser, lögfræðingur neytendasamtakanna, greindi frá því á blaðamannafundi í morgun að málin fjögur tengist öll Ischgl-skíðasvæðinu. Eitt málið sé fyrir hönd aðstandenda manns sem lést úr sjúkdómnum, tvö fyrir hönd þýskra ríkisborgara sem eru alvarlega veikir og fjórða málið fyrir hönd einstaklings sem veiktist ekki alvarlega en hefur glímt við afleiðingar veikindanna í lengrí tima.  

Peter Kolba formaður samtakanna tilkynnti á fundinum að fyrsta hópmálsóknin með allt að sex þúsund mögulegum kærendum verði höfðuð á næsta ári. Hann hefur farið fram á það við Sebastian Kurz kanslara Austurríkis að málið verði leyst utan dómstóla.  
 
Klauser segir að þau sem urðu fyrir tjóni, eða eftirlifendur þeirra, vilji að austurrísk yfirvöld biðjist afsökunar á því að hafa brugðist í viðbrögðum sínum við COVID-19.  Afsökunarbeiðni verði ekki þvinguð fram með dómi. 

Þetta eru fyrstu málin sem höfðuð eru fyrir hönd ferðamanna frá Austurríki, Þýskalandi og Sviss gegn lýðveldinu Austurríki og Týrólríki. Nærri sex þúsund ferðamenn frá 45 löndum sýktust af kórónuveirunni í skíðafríum í Týról, og þá sérstaklega í Ischgl og báru vírusinn víða um heim. 

Fréttin hefur verið uppfærð. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV