Bikarmeistararnir byrja á sigri

Mynd með færslu
 Mynd: RUV - Mummi Lu

Bikarmeistararnir byrja á sigri

23.09.2020 - 21:13
Fyrstu leikir úrvalsdeildar kvenna í körfubolta þetta tímabilið fóru fram í kvöld. Deildarmeistarar Vals hófu leiktíðina á tapi en Skallagrímur, bikarmeistararnir frá síðasta tímabili, sótti sigur gegn Haukum.

Fyrsti leikur kvöldsins var viðureign Fjölnis og Snæfells í Grafarvogi. Það voru gestirnir sem byrjuðu miklu betur og náði liðið góðri forystu til að byrja með. Með breytingum varnarlega tókst Fjölni að stoppa blæðinguna og þá fór að ganga betur í sókn, Fjölnir gekk á lagið og vann að lokum öruggan 31 stiga sigur, 91-60.

Í Kópavogi mætti Breiðablik deildarmeisturum Vals. Mikið breytt lið Vals tók dálítínn tíma að finna taktinn en Breiðabliks konur mættu grimmar til leiks. 17-13 var staðan eftir fyrsta leikhluta en þá kom góður kafli hjá gestunum og staðan í hálfleik 37-36 Breiðablik í vil. Í seinni hálfleik skiptust liðin á að ná áhlaupum en það var það Breiðablik sem reyndist sterkari aðilinn og vann að lokum 71-67

Bikarmeistarar Skallagríms mættu á Ásvelli í kvöld og léku gegn Haukum. Leikurinn var í járnum allan tímann en að lokum var það Skallagrímur sem reyndist sterkari aðilinn og vann 54-51.

Önnur úrslit voru á þann veg að Keflavík rótburstaði KR á heimavelli 114-72.