Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Áhyggjuefni ef verkalýðsforysta stingur höfði í sandinn

23.09.2020 - 07:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Forsendur kjarasamninga eru brostnar og ef haldið verður fast í þær launahækkanir sem kveðið er á um í lífskjarasamningnum leiðir það annað hvort til verðbólgu eða aukins atvinnuleysis, nema hvort tveggja sé. Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Eignarhaldsfélagsins Hornsteins, í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. Hann segir áhyggjuefni ef verkalýðsforystan stingi höfðinu í sandinn frekar en að horfast í augu við efnahagslegan veruleika.

Þorsteinn segir í grein sinni að efnahagslegar forsendur kjarasamninganna séu brostnar. Við gerð þeirra hafi verið spáð samfelldu hagvaxtarskeiði út samningstímann, lágri verðbólgu og stöðugu gengi. „Spyrja má út frá íslenskri hagsögu hversu raunhæfar þær forsendur voru en í það minnsta er veruleikinn sem blasir við íslensku efnahagslífi allt annar.“ Nú sé staðan sú að Íslendingar séu í einu mesta samdráttarskeiði frá upphafi mælinga, atvinnuleysi stefni í tíu prósent og krónan hafi fallið um fimmtung auk þess sem verðbólgan sé komin af stað aftur. 

Vill líta til Þjóðarsáttar og Stöðugleikasáttmála

Í grein sinni hvetur Þorsteinn, sem áður var varaformaður Viðreisnar og þar áður framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, fólk til að líta til sögunnar. Hann segir að Þjóðarsáttarsamningar hafi stuðlað að því að koma böndum á verðbólguna. Þá hafi Stöðugleikasáttmáli eftir hrun reynst ákveðið leiðarljós í að komast út úr þeirri kreppu sem skollin var á. Nú þurfi að leita annarra leiða en innistæðulausra launahækkana og gott samstarf sé mikilvægt. Þetta sé ekki hræðsluáróður heldur efnahagslegar staðreyndir. „Það er áhyggjuefni að við þessar kringumstæður virðist forysta verkalýðshreyfingarinnar ætla að stinga höfðinu í sandinn.“

Verkalýðsforystan vill ekki segja upp samningum

Fram kom í Speglinum í gær að ekki er vilji innan verkalýðshreyfingarinnar til að segja upp kjarasamningum vegna forsendubrests. Atvinnurekendur hafa hins vegar sagt að ekki sé svigrúm til launahækkana. Að óbreyttu ættu laun þeirra sem eru á taxtalaunum að hækka um 24 þúsund krónur um áramót og laun annarra um 15.750 krónur. 

Forsendunefnd skipuð þremur fulltrúum Samtaka atvinnulífsins og jafn mörgum frá Alþýðusambandi Íslands kemur saman til fundar í dag, í annað sinn. Atvinnurekendur lýstu því yfir á fyrsta fundi að ekki væri svigrúm til launahækkana um áramót.