Viðreisn heldur landsþingi til streitu en kosið rafrænt

22.09.2020 - 16:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Landsþing Viðreisnar fer fram í Silfurbergi í Hörpu á föstudag, en mikil áhersla verður lögð á streymi frá þinginu til þess að forðast það að fólk safnist of mikið saman.

Viðreisn boðaði þetta þing sem eins konar fyrri hluta landsþings, þar sem aðeins á að kjósa í helstu embætti og afgreiða stjórnmálayfirlýsingu, en öðrum dagskrárliðum landsþings svo frestað. Kosningarnar fara fram með rafrænum hætti.

Jenný Guðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Viðreisnar, segir í samtali við fréttastofu að í aðdraganda þingsins hafi sá möguleiki verið undirbúinn að halda það alfarið rafrænt.  Mikilvægt sé að lýðræði sé virkt á vettvangi stjórnmálanna á þessum tímum sem öðrum. Forysta og stjórn flokka þurfi að geta endurnýjað umboð sitt eins og lýðræðislegar reglur kveða á um. Við skipulag þingsins sé horft til þess að staðið sé að kosningum með lögmætum hætti og því sé lögð áhersla á að kosningar til stjórnar séu leynilegar og órekjanlegar með notkun rafrænna skilríkja inn á sérstakan kosningavef.

Heimildir fréttastofu herma að framboð til stjórnar séu orðin fleiri en sætin sem í boði eru og barátta því hafin innan flokksins að komast til forystu.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Samsett
Benedikt Jóhannesson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Benedikt sækist eftir oddvitasæti

Benedikt Jóhannesson, stofnandi og fyrrverandi formaður Viðreisnar, tilkynnti fyrr í mánuðinum að hann ætlaði að sækjast eftir oddvitasæti á suðvesturhorninu í komandi Alþingiskosningum á næsta ári. 

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, núverandi formaður, er oddviti flokksins í Suðvesturkjördæmi. Benedikt sagði í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér á dögunum að til þess að Viðreisn yrði í aðstöðu til að mynda ríkisstjórn að ári, þá þyrfti flokkurinn að ná mjög góðum árangri á Suðvesturhorninu. Þar vísar hann þá í kjördæmi formannsins, og Reykjavíkurkjördæmin tvö. 

„Ég nýt mín best þar sem baráttan er hörðust og vona að ég njóti trausts til að vera í fremstu víglínu,“ sagði Benedikt í yfirlýsingunni, en hann ætlar ekki að bjóða sig fram í embætti formanns eða varaformanns. 

Framboðsfrestur til formanns Viðreisnar, stjórnar og formanna málefnanefnda er til klukkan 12 á morgun. 

Fréttin hefur verið uppfærð. Í fyrri útgáfu var sagt að landsþingið hefði alfarið verið fært yfir í fjarfund, en það hefur verið leiðrétt. Þá er einnig áréttað að Benedikt Jóhannesson ætlar ekki að bjóða sig fram til formanns eða varaformanns. 

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot af Facebook - RÚV
Yfirlýsing Benedikts Jóhannessonar.
andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi