Útvarpsleikhúsinu hleypt af stað með Mikilvægum manni

Dagskrá útvarpsleikhússins 2020.
 Mynd: RÚV

Útvarpsleikhúsinu hleypt af stað með Mikilvægum manni

22.09.2020 - 15:13

Höfundar

Fyrsta leikverk vetrarins í Útvarpsleikhúsinu á Rás 1 er Mikilvægur maður eftir Bjarna Jónsson. Ýmislegt spennandi verður á dagskrá þar í vetur, nýstárlegt heimildarverk um kartöflur og páskaleikrit frá leikhópnum Kriðplei svo dæmi séu nefnd.

Útvarpsleikhúsið frumflutti leikritið Mikilvægur maður eftir Bjarna Jónsson síðastliðinn laugardag en það er fyrsta verkefni leikársins þar á bæ.

Mikilvægur maður segir frá Helga sem er maður á miðjum aldri og óvinnufær eftir að hafa orðið fyrir alvarlegu slysi í álveri. Hann hefur lengi haft hug á að gera óhappinu og afleiðingum þess einhver skil og er byrjaður að taka upp hlaðvarp sem hann hyggst setja á netið. En það er þrautinni þyngra að gera atlögu að fortíðinni. Hægt er að hlusta á verkið í spilara RÚV.

Bjarni Jónsson er eitt af okkar fremstu leikskáldum en hann er líka einn af meðlimum leikhópsins Kriðpleirs sem hefur sett upp verkin Bónusferðin og Litlu jólin í Útvarpsleikhúsinu á undanförnum árum við miklar vinsældir. Kriðpleir  snýr aftur um páskana með nýtt verk, Uppgjörið. Það er komið að skuldadögum hjá þeim Árna, Friðgeiri og Ragnari sem takast allir á við ýmis konar fjármálaóreiðu og skuldasöfnun í sínu lífi.

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Pálsson
Leikhópurinn Kriðpleir snýr aftur um páskana.

Í október býður Útvarpsleikhúsið í samstarfi við leikhópinn Trigger Warning upp á verkið Velkomin heim sem byggir að hluta til á samnefndu sviðsverki eftir Maríu Thelmu Smáradóttur, Köru Hergils og Andreu Vilhjálmsdóttur. Velkomin heim fléttar saman sögur Maríu Thelmu sem er fyrsta leikkonan af asískum ættum sem útskrifast frá Listaháskóla Íslands og móður hennar Völu Rúnar sem fæddist á hrísgrjónaakri í Taílandi um miðja síðustu öld. Magnað verk sem hugar að brýnum málum í okkar samtíma, það fjallar um merkingu upprunans, ólíka menningarheima, fordóma og mennsku.

Um jólin verður svo kynnt til sögunnar nýtt framhaldsverk eftir Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur leikkonu og handritshöfund. Þetta verk byggir einnig á sögum tveggja kenna sem eru uppi á ólíkum tímum, annar svegar árið 1900 og hins vegar árið 2000. Það fjallar um barneignir, hvernig það er að geta ekki eignast börn og hvernig það er að eignast börn án þess endilega að ætla sér það. Flestir þekkja Jóhönnu Friðriku líklegast sem leikkonu en hún hefur í auknum mæli látið til sín taka undanfarið sem handritshöfundur en hún var til að mynda einn af handritshöfundum kvikmyndarinnar Agnes Joy sem frumsýnd var í fyrra og glæpaþáttaraðarinnar Systrabönd sem sýnd verður í Sjónvarpi Símans á næsta ári.

Mynd með færslu
 Mynd:
Leikverkið Velkomin heim fékk góðar viðtökur þegar það var sýnt í Þjóðleikhúsinu 2019.

Kartöflur er nýstárlegt heimildaverk sem byggir á samnefndu sviðsverki leikhópsins CGFC sem tilnefnt var til Grímuverðlauna síðastliðið vor. Nútíð og fortíð mætast í umfjöllun um hið hógværa en mikilvæga fyrirbæri kartöfluna sem hefur forðað þjóðinni frá skyrbjúg og haldið henni uppi á snakki í gegnum aldirnar. Saga kartöfluræktunar er merkari en ætla mætti og þar koma ýmsar áhugaverðar persónur við sögu, eins og hlustendur munu komast að snemma á nýju ári.

Allt þetta og ýmislegt fleira verður á dagskrá Útvarpsleikhússins í vetur.